Erlent

Mann­skæð skot­á­rás í skóla í Banda­ríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Foreldrum var gert að sækja börn sín í skólann eftir skothríðina.
Foreldrum var gert að sækja börn sín í skólann eftir skothríðina. AP/Alex Kormann

Skotárás átti sér stað í dag í kaþólskum skóla í Minneapolis í Bandaríkjunum. Tvö börn eru látin og fjöldi særðra er sagður að minnsta kosti tuttugu. Árásarmaðurinn er sagður hafa svipt sig lífi eftir að hann var króaður af.

Þetta er að minnsta kosti fjórða mannskæða skotárásin í borginni á einum sólarhring. Einn lét lífið og sex særðust í árás fyrir utan annan skóla í gær og tveir aðrir létu svo lífið í tveimur mismunandi árásum seinna í gær.

Árásin átti sér stað við kirkju á skólalóðinni, þar sem börn höfðu komið saman í messu í upphafi skóladags. Héraðsmiðillinn Star Tribune segir tíu ára dreng hafa hlotið skotsár á höfði.

Þetta heyrðist víst í samskiptum milli viðbragðsaðila og sögðu þeir einnig að „fórnarlömbin“ væru að minnsta kosti tuttugu talsins. Tvö þeirra voru sögð hafa verið skotin í höfuðið og að minnsta kosti einn til viðbótar mun hafa verið í alvalegu ásigkomulagi.

Þá segir AP fréttaveitan að fimm börn hafi verið flutt á sjúkrahús eftir árásina.

Star Tribune hefur eftir íbúum nærri skólanum að skothríðin hafi staðið yfir í nokkurn tíma.

Faðir eins skólabarns sem býr nærri skólanum og sagðist þekka til skotvopna sagði skothríðina hafa hljómað eins og árásarmaðurinn hafi notað hálf sjálfvirkan riffil. Skothríðin hafi staðið yfir í nokkrar mínútur og telur faðirinn sig hafa heyrt þrjátíu til fimmtíu skot.

Fréttin hefur verið uppfærð og verður uppfærð frekar.

Hér að neðan má sjá beina útsendingu AP frá skólanum. Von er á blaðamannafundi um klukkan fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×