Skoðun

Öndunar­æfingar í boði SFS

Vala Árnadóttir skrifar

Á sama tíma og eldislaxar ógna framtíð villtra laxastofna og landeigendur berjast fyrir stjórnarskrárvörðum réttindum sínum, situr Umhverfis- og orkus­tofnun yfir fundum vegna steina í Miðfjarðará samkvæmt fyrirspurnum Morgunblaðsins.

Nokkrir vörubílar af grjóti, framkvæmd í neyðarrétti sem enginn óskar sér að þurfa að fara í, til að verja hrygningarstöðvar, eru orðnir að aðaláhyggjuefni stofnunarinnar sem á að hafa eftirlit með því að fiskeldisfyrirtæki fylgi lögum og starfsleyfum.

Að sama skapi hefur Morgunblaðið – blað í eigu útgerðarmanna – gert þessa „steinamálsrannsókn“ að fréttamálum síðustu daga. Blaðið hefur hringt í stofnanir, kallað eftir skýringum og skrifað ítrekað um árbakkann en ekki tekið eitt viðtal við landeigendur. Þess má geta að laxveiðiám hefur verið lokað í Noregi m.a. vegna fiskeldis og því vekur furðu að nokkrir steinar taki meira pláss í prentun en framtíð íslenska laxins og afkomu fjölda fjölskyldna á landsbyggðinni.

Endurtekin brot – en engin umræða um endurmat starfsleyfa

Frá 2021 til 2024 hafa komið fram fjölmörg frávik frá starfsleyfi Umhverfisstofnunar hjá Arctic Sea Farm í Dýrafirði. Fyrirtækið fór yfir hámarks­lífmassa starfsleyfisins árið 2021 og í eftirlitsskýrslum síðan hafa ítrekað komið fram alvarleg brot, þar á meðal framleiðsla umfram heimildir, rangar staðsetningar kvía og vanræksla á lögbundinni skýrslugjöf.

Í nýjustu úttekt árið 2024 voru skráð níu frávik í einu eftirliti, þar á meðal að seiði voru sett í kvíar án tilskilinna gagna. Þetta er ekki spurning um einstaka „mistök“ heldur mynstur kerfisbundinnar vanrækslu sem ætti að kalla á endurmat starfsleyfa og umræðu um hvernig Ísland ætlar að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt Vatnatilskipun.

Það vekur því sérstaka furðu að Umhverfisstofnun verji tíma í fundi um steina í árbakka, þegar Eftirlitsstofnun EFTA hefur nýlega bent á að Ísland hafi ekki einu sinni flokkað vistfræðilegt eða efnafræðilegt ástand vatnshlota sinna samkvæmt vatnatilskipun ESB. Þetta er skilgreindur innleiðingarhalli sem kallar á úrbætur – ekki steinamál.

Þess í stað er Umhverfisstofnun að verja tíma í að ræða steina sem landeigendur lögðu í á til að verja eignir sínar og hrygningarsvæði villtra laxa.

Þess má einnig geta að í eftirlitsskýrslum Matvælastofnunar um rekstrarleyfi umrædds fyrirtækis hafa síðustu ár komið fram alvarleg frávik í hverri einustu eftirlitsferð.

Öndum rólega?

Í þessu samhengi skrifar framkvæmdastjóri SFS grein undir fyrirsögninni „Öndum rólega“. Sama viðkvæði og í veiðigjaldadeilunni: ef við eigum alltaf að anda jafn rólega og SFS vill, þá gerist ekki mikið.

Í greininni reynir hún að draga úr alvöru sleppinga með því að vísa í erfðagreiningar sem liggja ekki fyrir, fullyrða að eldislax æxlist illa, og benda á að áhættumat Hafrannsóknarstofnjunar geri beinlínis ráð fyrir strokum sem „villtur lax geti staðið af sér“. Þetta er villandi mynd.

Í fyrsta lagi er slepping sjálfstætt brot á lögum, ekki “það gera allir mistök”. Í öðru lagi er hugmyndin um að villtir stofnar „standi af sér ágang“ röng, því erfðablöndun er óafturkræf og Noregur er augljóst dæmi um það einsog framkvæmdastjóri SFS veit full vel. Í þriðja lagi er það einfaldlega rangt að Ísland sé „á undan öðrum“ í verndun; við erum eina landið í Norður-Atlantshafi sem leyfir áframhaldandi stækkun sjókvíaeldis þrátt fyrir stórfelldar sleppingar.

Það er því að fagna að í stjórnarsáttmála er kveðið á um að styrkja komandi lagaumgjörð og færa Ísland nær lokuðum kvíum en ekki bara fara í öndunaræfingar með SFS.

„Mistök gerast“?

Þegar framkvæmdastjóri SFS segir í grein sinni á Vísi að „mistök gerist“ er það eins og um sé að ræða óvænt slys. En raunveruleikinn er annar: fiskeldisstöðvar komast varla í gegnum eina einustu úttekt án athugasemda. Það er alltaf eitthvað að – ónógar varnir, slitnar netapokar, skortur á vöktun. Þetta eru ekki mistök, þetta er mynstur. Sleppingar eru fyrirsjáanlegar afleiðingar kerfis sem hefur normalíserað vanrækslu.

Á meðan SFS biður um rósemi og Morgunblaðið eltir steina, stendur stærsta spurningin eftir ósvöruð:

Hvers vegna er Umhverfisstofnun ekki að endurmeta starfsleyfi fiskeldisins þegar fyrirtækin starfa ekki samkvæmt lögum?

Höfundur er lögfræðingur og stjórnarmaður IWF.




Skoðun

Sjá meira


×