Innlent

Sveitastjórn Rang­ár­þings ytra gefur út framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Efnisvinnsla vegna undirbúningsframkvæmda við Hvammsvirkjun var stöðvuð í lok júlí.
Efnisvinnsla vegna undirbúningsframkvæmda við Hvammsvirkjun var stöðvuð í lok júlí. Landsvirkjun

Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi til Landsvirkjunar vegna undirbúningsframkvæmda fyrir Hvammsvirkjun.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að með leyfinu geti Landsvirkjun haldið áfram undirbúningsvinnu á svæðinu, einkum gerð aðkomuvegar, annarrar vegagerðar og efnisvinnslu fyrir vegagerðina. Efnisvinnslan felur í sér bæði sprengingar og forskurð á bergi í efsta hluta fyrirhugaðs frárennslisskurðar.

Með samþykkt sveitarstjórnarinnar féll fyrra framkvæmdaleyfi úr gildi um leið. Leyfið tekur ekki til framkvæmda sem eru í eða við vatnsfarveg og hafa því ekki bein né óbein áhrif á vatnshlot, ástand vatnshlota eða umhverfismarkmið þeirra.

Umhverfis- og orkustofnun veitti Landsvirkjun bráðabirgðaheimild til sex mánaða til undirbúningsframkvæmda fyrr í vikunni. Eftir að sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti framkvæmdaleyfið er hægt að halda framkvæmdum áfram á ný. Þær voru stöðvaðar í lok júlí eftir að úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála samþykkti kröfu landeigenda.

Virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun var dæmt ógilt af dómstólum og staðfest af Hæstarétti í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×