Erlent

Leið­togar Evrópu í­treka sjálfs­á­kvörðunar­rétt Úkraínu­manna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Herdeild Úkraínumanna við æfingar í Zaporizhzhia.
Herdeild Úkraínumanna við æfingar í Zaporizhzhia. AP/UKRAINIAN 65 MECHANIZED BRIGADE/Andriy Andriyenko

Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir ítreka rétt Úkraínumanna til að ákvarða eigin framtíð. Þá segja þeir mögulegt samkomulag verða að tryggja öryggishagsmuni Úkraínu og Evrópu.

Yfirlýsingunni er ætlað að sýna fram á samstöðu Evrópuríkjanna nú þegar fundur Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimir Pútín Rússlandsforseta um Úkraínu stendur fyrir dyrum.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, vildi hins vegar ekki leggja nafn sitt við yfirlýsinguna.

Leiðtogarnir segjast fagna viðleitni Bandaríkjaforseta til að binda enda á stríð Rússlands gegn Úkraínu en ítreka að ekki sé hægt að varða leiðina að friði í Úkraínu án aðkomu Úkraínumanna.

https://www.visir.is/g/20252761082d/-thetta-er-i-rauninni-threyfingafundur-

Eins og margoft hefur komið fram hefur Pútín þverneitað að funda með Vólódimír Selenskí Úkraínuforseta. Þá hafa bæði hann og Trump haft uppi alls konar ummæli um þá eftirgjöf sem þarf að eiga sér stað að hálfu Úkraínumanna, án þess að ræða það sérstaklega við Úkraínumenn.

Stóra spurningin sem vofir yfir fundi Trump og Pútín er sú  hvort fyrrnefndi muni fallast á sjónarmið síðarnefnda um að Úkraína þurfi að gefa eftir landsvæði og Atlantshafsbandalagið að draga úr umsvifum sínum í nágrannaríkjunum.

Leiðtogarnir ítreka í yfirlýsingunni að réttlátur og varanlegur friður verði að byggja á alþjóðalögum og virðingu við sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Þá verði að virða þá grunnreglu að landamærum ríkja verði ekki breytt með valdi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×