Íslenski boltinn

Sjáðu dramatísku sigurmörkin og Stjörnu­menn skella Víkingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmenn fagna sigurmarki Orra Sigurðar Ómarssonar gegn Blikum.
Valsmenn fagna sigurmarki Orra Sigurðar Ómarssonar gegn Blikum. vísir/diego

Valur náði fimm stiga forskoti á toppi Bestu deildar karla í gær. Fjórir leikir fóru þá fram.

Valur fékk Breiðablik í heimsókn á N1-völlinn á Hlíðarenda og unnu 2-1 sigur. Öll mörk leiksins komu eftir hornspyrnur. Blikar náðu forystunni strax á 4. mínútu þegar Damir Muminovic skoraði. 

Bjarni Mark Antonsson jafnaði á 71. mínútu og þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Orri Sigurður Ómarsson sigurmark Valsmanna sem hafa unnið sex af síðustu sjö leikjum sínum og gert eitt jafntefli.

Eftir frækinn 3-0 sigur á Brøndby á fimmtudaginn tapaði Víkingur fyrir Stjörnunni, 2-4.

Jóhann Árni Gunnarsson, Örvar Eggertsson, Andri Rúnar Bjarnason og Guðmundur Baldvin Nökkvason skoruðu mörk Garðbæinga sem voru manni færri frá 52. mínútu þegar Þorri Mar Þórisson fékk að líta rauða spjaldið. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörk Víkinga úr vítaspyrnum. Víkingur er í 2. sæti deildarinnar með 32 stig en hefur ekki unnið í síðustu fimm leikjum. Stjarnan er í 4. sætinu með 28 stig.

Vestri komst upp fyrir Fram með 3-2 sigri í leik liðanna á Ísafirði. Vuk Oskar Dimitrijevic og Kennie Chopart kom Frömurum tvisvar sinnum yfir en Vladimir Tufegdzic og Ágúst Eðvald Hlynsson jöfnuðu fyrir Ísfirðinga og Gunnar Jónas Hauksson skoraði svo sigurmark þeirra í uppbótartíma.

Dagur Ingi Valsson skoraði eina mark leiks KA og ÍBV á Akureyri þegar fimm mínútur voru eftir. Hann hafði komið inn á sem varamaður mínútu áður. Með sigrinum komust KA-menn upp í 7. sæti deildarinnar en Eyjamenn eru í sætinu fyrir neðan. Einu stigi munar á liðunum.

Öll mörkin úr leikjum gærdagsins má sjá hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Rýr stigasöfnun í deildinni vissulega áhyggjuefni“

Sölvi Geir Ottesen var að mörgu leyti sáttur við spilamennsku Víkings þrátt fyrir tap liðsins gegn Stjörnunni í Bestu-deild karla í fótbolta í Víkinni í kvöld. Sölvi Geir hefur þó áhyggjur af rýrri uppskeru í deildinni upp á síðkastið og fannst vanta upp á einbeitingu í báðum vítateigum í leiknum í kvöld. 

Uppgjör: Valur - Breiðablik 2-1 | Dramatískt sigurmark Vals í uppbótartíma

Valur opnaði fimm stiga forskot á toppi Bestu deildar karla í knattspyrnu með því að vinna Breiðablik í 18. umferð deildarinnar í kvöld. Blikar komust yfir í upphafi leiks en tvö mörk eftir hornspyrnur í seinni hálfleik komu Val yfir línuna. Orri Sigurður Ómarsson tryggði sigurinn með skall í uppbótartíma.

Hallgrímur: Ef þú slakar á 1-3% er þetta fljótt að breytast

„Það var klárlega léttir að sjá boltann inni, ég var farin að hugsa að þetta myndi enda 0-0. Þetta var opinn og skemmtilegur leikur þar sem bæði lið hefðu geta skorað tvö til þrjú mörk í fyrri hálfleik,“ sagði Hallgrímur Jónasson eftir 1-0 sigur á móti ÍBV í Bestu deild karla í dag þar sem sigurmarkið kom þegar skammt var eftir af leiknum.

Uppgjörið: KA - ÍBV 1-0 | Dagur Ingi tryggði KA mikilvæg stig

KA og ÍBV mættust á Greifavellinum á Akureyri í 18. umferð Bestu deildar karla í dag. Leikurinn var í járnum lengi vel en fimm mínútum fyrir leikslok skoraði Dagur Ingi Valsson eina mark leiksins og tryggði 1-0 sigur. KA lyftir sér upp í sjöunda sæti með sigrinum yfir Eyjamenn.

Uppgjör: Vestri-Fram 3-2 | Vestri með sigurmark í uppbótatíma

Gunnar Jónas Hauksson tryggði Vestra 3-2 endurkomusigur á Fram í markaleik á Ísafirði í dag í fyrsta leik átjándu umferðar Bestu deildar karla í fótbolta. Framarar komust tvisvar yfir í leiknum en Vestramenn voru fljótir að jafna í bæði skiptin og skoruðu síðan sigurmarkið í uppbótatíma.

Davíð Smári: Ánægður með orkustigið

Vestri vann dramatískan sigur á Fram í 18. umferð Bestu deildar karla fyrr í dag. Gunnar Jónas Hauksson tryggði Vestra 3-2 með marki á 92. mínútu og var þjálfari Vestra, Davíð Smáir Lamude, ánægður með ýmislegt eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×