Skoðun

Sýnum þeim frelsið

Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Á morgun verður Gleðigangan gengin í Reykjavík, hápunktur Hinsegin daga sem hafa staðið alla vikuna. Þessi árlegi viðburður er stærsta hátíð okkar sem erum hinsegin, tími til þess að fagna því hver við erum og þar sem meirihlutasamfélagið fær tækifæri til þess að sýna stuðning sinn við mannréttindi okkar og tilverurétt í samfélaginu.

Það er ekkert leyndarmál að undanfarin ár hefur borið sífellt meira á fólki í íslensku samfélagi sem er andsnúið hinsegin tilveru, hinsegin réttindum og ekki síst hinsegin sýnileika. Hatursorðæða í okkar garð er orðin daglegt brauð á samfélagsmiðlum og hatursglæpir hafa í kjölfarið færst í aukana. Það er nánast hætt að teljast fréttnæmt að regnbogafáninn, táknmynd frelsis okkar, sé eyðilagður eða fjarlægður.

Frelsi hinsegin fólks snýst bæði um frelsi til og frelsi frá. Samtökin ‘78 hafa í 47 ár barist fyrir frelsi hinsegin fólks til að elska og frelsinu til að fá að vera við sjálf. En við berjumst einnig fyrir frelsi frá fordómum og mismunun. Frelsi frá ótta og ofbeldi. Við sættum okkur ekki við neitt annað.

Íslenskt hinsegin samfélag stendur sterkt og samstaðan okkar á meðal hefur líklega aldrei verið eins mikil. Rétt eins og demantar, þá styrkjumst við og glönsum undir pressu.

Upp með glimmerið, upp með fánana!

Á morgun sýnum við þeim hvernig frelsi lítur út.

Höfundur er samskipta- og kynningarstjóri Samtakanna ‘78.




Skoðun

Sjá meira


×