Handbolti

Ís­lensk landsliðskona skrifar um glímu sína við átröskun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Erlingsdóttir fagnar góðum sigri með íslenska kvennalandsliðinu.
Sandra Erlingsdóttir fagnar góðum sigri með íslenska kvennalandsliðinu. Vísir/Jónína

Íslensk afrekskona og lykilmaður í íslenska landsliðinu í mörg ár vann ekki aðeins afrek inn á vellinum heldur sýndi einnig mikinn styrk og þrautseigju utan hans.

Íslenska handboltakonan Sandra Erlingsdóttir er komin aftur heim úr atvinnumennsku og spilar með ÍBV næsta vetur auk þess að reyna að vinna sér sæti í HM-hópi Íslands.

Sandra hefur gengið í gegnum ýmislegt á sínum ferli en í dag vill hún gefa öðrum konum góð ráð. Sandra er ásamt fleirum með síðuna Ps. Árangur á Instagram þar sem hún er með næringar-, heilsu- og lífstílsráðgjöf.

Sandra er líka tilbúin að vera á persónulegu nótunum í pistlum sínum og gott dæmi er sá nýjasti.

Sandra ræðir þá ræðir glímu sína við átröskun sem henni tókst að yfirvinna og komast í framhaldinu alla leið út í atvinnumennsku í handboltanum. Hún sýnir sláandi mun á sér á tveimur myndum.

„Á fyrri myndinni var ég 45 kg, orkulaus, ekki á blæðingum með meltingartruflanir og komin með leið á lífinu,“ skrifaði Sandra.

„Sannleikurinn er sá að léttasta útgáfan af mér var svo sannarlega ekki sú heilbrigðasta. Ég var veik, líkaminn minn var að gefast upp og andlega stóð ég ekki í lappirnar. Nánast búin að kasta stærsta draumnum frá mér að verða handboltakona. Bara fyrir það að vera grönn,“ skrifaði Sandra.

„Í dag er ég í bestu vinnu í heimi að hjálpa fólki að ná sínum markmiðum því ég veit hversu lífsnauðsynlegt það er að gefa líkamanum þá næringu sem hann þarf,“ skrifaði Sandra.

„Það að vera léttust gerir þig ekki hamingjusama. Það að borða minna gerir þig ekki heilbrigðari. Og vigtin? Hún segir nákvæmlega ekki neitt um gildin þín í lífinu eða hvernig einstaklingur þú ert,“ skrifaði Sandra eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×