Íslenski boltinn

„Ætlum að fara þarna og sækja þennan bikar“

Hörður Unnsteinsson skrifar
Arna er fyrirliði FH-liðsins.
Arna er fyrirliði FH-liðsins. Vísir/ÓskarÓ

FH komst í kvöld í bikarúrslit kvenna í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 2-3 dramatískan sigur á Valskonum á Hlíðarenda, þar sem sigurmarkið kom ekki fyrr enn á lokamínútu framlengingar þegar varamaðurinn Margrét Brynja Kristjánsdóttir skoraði laglegt mark. Arna Eiríksdóttir fyrirliði FH liðsins var stórkostleg í kvöld og stýrði vörn sinna kvenna með stakri prýði.

Aðspurð hvernig það væri að vera komin í bikarúrslit með FH í fyrsta skipti í sögunni sagði Arna tilfinninguna vera stórkostlega. 

„Þetta er eitthvað sem ég og eiginlega allar aðrar í liðinu höfum ekki upplifað áður. Að klára þetta líka svona, að koma til baka er bara alveg stórkostlegt.“ 

Arna talaði einnig um styrkleika FH liðsins, mikinn karakter og hlaupagetuna sem skilaði þeim yfir línuna í maraþon leik kvöldsins. 

„Einn af okkar helstu styrkleikum er svakalega mikil hlaupageta og miklir líkamlegir burðir, þannig það hentar okkur vel að spila á móti liðum í 120 mínútur. Það sýndi sig hérna í dag, við náðum að opna þær oft í framlengingunni og hefðum átt að vera búnar að klára þetta fyrr.“ 

Arna sagði að FH liðið ætti sér engan óskamótherja í úrslitaleiknum en Breiðablik og ÍBV mætast í hinum undanúrslitaleiknum á fimmtudag. 

„Mér gæti eiginlega bara ekki verið meira sama. Við ætlum að fara þarna og sækja þennan bikar og koma með hann í Kaplakrika í fyrsta sinn í sögunni“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×