Fótbolti

Þjálfarinn Wi­eg­man stal senunni í fagnaðar­látum enska liðsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wiegman tók lagið með sínum uppáhalds tónlistarmanni.
Wiegman tók lagið með sínum uppáhalds tónlistarmanni. EPA/ANDY RAIN

Leikmenn enska kvennalandsliðsins hafa fagnað vel og innilega síðan þær urðu Evrópumeistarar um liðna helgi. Hin stóíska Sarina Wiegman, þjálfari liðsins, stal hins vegar senunni í kjölfar fagnaðarláta liðsins heima fyrir.

Hin 55 ára gamla Wiegman var þarna að stýra Englandi til sigurs á sínu öðru Evrópumóti í röð. Ekki nóg með það heldur fór liðið einnig alla leið í úrslit heimsmeistaramótsins sumarið 2023.

Hún er þekkt fyrir gríðarlega yfirvegun. Það skiptir engu máli hver staðan er, alltaf heldur Wiegman ró sinni. Það er allt þangað til uppáhalds söngvarinn hennar, Burna Boy, mætir og tekur lagið í miðjum fagnaðarlátum enska liðsins.

Eftir að hafa keyrt í gegnum Lundúnaborg og fagnað með stuðningsfólki sínu var komið að því að hylla enska landsliðið og starfslið þess. Það var þá sem Burna Boy steig á svið og tók lagið. Wiegman gat ekki leynt aðdáun sinni og tók lagið með honum.

„Sarina er með hreyfingarnar. Hún elskar Burna Boy, ég trúi þessu ekki. Andlitið á henni þegar hann steig fram á sviðið, það var augnablik sem hefði þurft að mynda. Engin af okkur trúði þessu. Hún var dansandi og syngjandi með honum, þetta var sérstakt augnablik,“ sagði Esme Morgan, varnarmaður Englands og Washington Spirit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×