Erlent

Fækkar dögunum sem hann gaf Pútín: „Ég held ég viti þegar svarið“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump í Skotlandi með Keir Starmer og eiginkonu hans Victoríu.
Donald Trump í Skotlandi með Keir Starmer og eiginkonu hans Victoríu. AP/Jacquelyn Martin

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist verulega vonsvikinn í garð Vladimírs Pútín, kollega síns í Rússlandi. Þeir hafi margsinnis talað saman og verið nærri því að koma á friði í Úkraínu en í hvert sinn hafi Pútín gert umfangsmiklar árásir á Úkraínu og gert út af við friðarviðleitnina.

Þetta sagði Trump í Skotlandi, þar sem hann fundaði með Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands.

„Við héldum nokkrum sinnum að við værum að ljúka þessu en þá byrjaði Pútín að skjóta eldflaugum inn í einhverja borg, eins og Kiyv, og drepur mikið af fólki á elliheimili eða einhvers staðar. Við erum með lík um alla götuna,“ sagði Trump.

Trump sagði þetta ekki leiðina til að koma á friði og að hann væri mjög vonsvikinn í garð Pútíns.

Fyrr í þessum mánuði hótaði Trump því að beita Rússland umfangsmiklum refsiaðgerðum ef ekki væri búið að semja um frið innan fimmtíu daga. Nú segist hann ætla að fækka þeim dögum og segist hann einnig vera nokkuð viss um hvert svar Pútíns muni vera.

Sjá einnig: Hótar Pútín með tollum ef friður næst ekki á fimmtíu dögum

Forsetinn sagði ekki hve margir dagarnir yrðu. Hann var þó spurður út í það eftir fundinn með Starmer og þá sagði hann að Pútín myndi fá tíu til tólf daga.

Frá því hann tók við embætti forseta hefur Trump ítrekað sagt að hertar aðgerðir gegn Rússum komi til greina án þess þó að beita Rússa frekari þrýstingi. Þess í stað hefur hann sagt að Bandaríkjamenn muni „ganga frá borðinu“ og mögulega hætta stuðningi við Úkraínumenn.

Í maí lýsti Trump því yfir að Pútín væri að „leika sér að eldinum“ með ítrekuðum árásum Rússa á óbreytta borgara í Úkraínu. Þá sagði hann meðal annars að Pútín virtist „genginn af göflunum“.

„Ég veit ekki hvern fjandinn kom fyrir hann,“ sagði Trump í maí.

Þá hefur Trump sjálfur gefið til kynna að hann hafi staðið í vegi hertra refsiaðgerða gegn Rússlandi. en hann hefur sjálfur gefið til kynna að hann hafi staðið í vegi hertra refsiaðgerða.

Á áðurnefndum blaðamannafundi eftir fundinn með Starmer sagði Trump að hann hefði alltaf átt gott samband við Pútín. Þess vegna hafi Trump talið að hann gæti samið við forsetann rússneska, þó hann hefði verið harður við Pútín. Nú væri hann ekki viss um að hann gæti samið við Pútín, þó það gæti enn gerst.


Tengdar fréttir

Samninganefndir ræða fund leiðtoganna

Vólódímir Selenskí Úkraínuforseti segir samninganefndir Úkraínu og Rússlands hafa rætt möguleikann á að haldinn verði beinn fundur hans og Vladímírs Pútín Rússlandsforseta.

Selenskí dregur í land

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti tilkynnti í dag að ríkisstjórn hans legði frumvarp fyrir þingið sem gerði embætti sem fást við spillingu í úkraínskum stjórnvöldum óháð framkvæmdarvaldinu á nýjan leik. Hann var sakaður um að grafa undan lýðræði í landinu eftir að frumvarp var keyrt í gegnum þingið á methraða sem kvað á um að setja spillingarrannsóknarembætti undir ríkissaksóknara, sem forseti skipar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×