Körfubolti

Kristófer sendir frá sér yfirlýsingu: „Ekki ætlun mín að valda usla“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristófer Acox er ekki í æfingahópi Íslands og fer ekki á EM.
Kristófer Acox er ekki í æfingahópi Íslands og fer ekki á EM. Vísir/Diego

Körfuboltamaðurinn Kristófer Acox, leikmaður Vals, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar viðtals sem hann fór í.

Í gær var greint frá því hér á Vísi að Kristófer hefði fengið þau skilaboð frá þjálfara íslenska körfuboltalandsliðsins, Craig Pedersen, að hann yrði ekki valinn aftur í landsliðið á meðan Pedersen væri við stjórnvölin.

Í morgun birtist svo viðtal við Kristófer þar sem hann sagði frá því að honum hefðu verið gefnar upp þrjár ástæður fyrir því að ákvörðunin um að hann yrði ekki valinn á meðan Pedersen væri þjálfari.

Nú hefur Kristófer sent frá sér stuttorða yfirlýsingu þar sem hann segir að hann hafi ekki viljað valda neinum usla með viðtalinu. Þrátt fyrir ágreininginn hrósar hann þjálfaranum og segist ætla að styðja við bakið á íslenska liðinu.

„Craig Pedersen er frábær þjálfari. Hann og þjálfarateymi hans hafa komið íslenskum körfubolta á næsta stig síðastliðinn ár, verandi á leið á sitt þriðja stórmót,“ ritar Kristófer.

„Mér þykir leitt hvernig samstarf mitt og Craigs fór og horfandi til baka myndi ég gera hlutina öðruvísi. Það er ekki ætlun mín að valda usla með viðtalinu mínu við Vísi, heldur bara segja mína hlið. Þessu máli er lokið af minni hálfu og mun ég ekki tjá mig meira um það.

Núna er bara að fylkja liði á bak við strákana og setja fókusinn á að styðja þá í þessu risa verkefni sem er framundan.

Áfram Ísland!“

Yfirlýsing Kristófers, sem birtist á Instagram.Skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×