Innlent

Mót­mælandi skvetti málningu á ljós­myndara Morgun­blaðsins

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þessa mynd fangaði kvikmyndatökumaður Ríkisútvarpsins af Eyþóri.
Þessa mynd fangaði kvikmyndatökumaður Ríkisútvarpsins af Eyþóri. Guðmundur Bergkvist

Mótmælandi á mótmælafundi Félagsins Íslands-Palestínu skvetti rauðri málningu á ljósmyndara Morgunblaðsins og mbl.is sem var á vettvangi. 

Félagið stóð fyrir mótmælum fyrir utan húsakynni utanríkisráðuneytisins við Reykjastræti. Liður í aðgerðum mótmælenda var að skvetta rauðri málningu á glugga og veggi ráðuneytisins.

Eyþór Árnason ljósmyndari var á vettvangi að fanga mótmælin á filmu þegar ungur maður gekk upp að honum og spurði hann í umboði hvaða miðils hann væri á fundinum.

„Ég svaraði mbl.is og síðan labbar hann burt. Nokkrum andartökum seinna finn ég að það kemur málningarsletta á mig. Ég sný mér við og hann gargar eitthvað ógreinilegt um Morgunblaðið,“ segir Eyþór í samtali við fréttastofu.

Hann segist aldrei hafa upplifað nokkuð þessu líkt á löngum fjölmiðlaferli en hann hefur oft myndað mótmæli. Hann segist aldrei hafa upplifað annað en góðmennsku og skilning af hendi mótmælenda fyrr en nú. 

Aðspurður segist hann ekki vita hvort eftirmálar verði af atvikinu en hann segir að blessunarlega hafi dýr búnaður hans sloppið að mestu leyti.  Þó sé taska hans ónýt ásamt ólunum á myndavélunum og jakkinn, það er allt útatað í rauðri málningu sem þvæst ekki auðveldlega úr fötum.

Hópur mótmælanda gengu í snarhasti að Eyþóri og báðu hann afsökunar. Þeir sögðu Félagið Ísland-Palestínu ekki líða slíka hegðun.

Guðmundur Bergkvist, kvikmyndatökumaður á Ríkisútvarpinu, segist málningarskvettarann hafa fyrst gengið upp að sér og spurt sig á hvaða vegum hann væri á mótmælunum. Þegar Guðmundur ansaði því ákvað skvettarinn að hlífa honum við ötunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×