Formúla 1

Rekinn sex­tán mánuðum eftir skandalinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Christian Horner ásamt eiginkonu sinni Geri Halliwell.
Christian Horner ásamt eiginkonu sinni Geri Halliwell. EPA-EFE/ALI HAIDER

Christian Horner, liðsstjóri Red Bull Racing í Formúlu 1-kappakstrinum, var í morgun rekinn úr starfi. Hann hefur stýrt liðinu í 20 ár, en enginn hefur sinnt slíku starfi lengur í Formúlu 1.

Tíðindin koma að vissu leyti sem þruma úr heiðskíru lofti. Hneykslismál tengt Horner kom upp fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan þegar óviðeigandi skilaboð hans til kvenkyns starfsmanns liðsins fóru í dreifingu. Eftir rannsókn innanbúðar, í tvígang, var Horner sagður hafa gert ekkert af sér og hann hélt starfinu.

Breskir fjölmiðlar greina frá því að hann hafi kvatt starfsfólk Red Bull í morgun. Red Bull hefur staðfest tíðindin í yfirlýsingu þar sem greint er frá brottrekstri hans.

Horner er 51 árs gamall og hefur stýrt Red Bull-liðinu frá stofnun þess, árið 2005. Red Bull hefur unnið keppni bílasmiðja sex sinnum og átta sinnum titil ökuþóra í stjórnartíð hans.

Laurent Mekies, sem var yfir varaliði Red Bull, Racing Bulls, mun taka við starfi Horners.

Árangur Red Bull hefur verið slakur í ár og virðist erfið keppni á Silverstone-brautinni á Bretlandi um síðustu helgi hafa verið síðasti naglinn í kistu Horners. Red Bull er í fjórða sæti í keppni bílasmiðja og hefur ríkjandi heimsmeistari Max Verstappen haldið liðinu á floti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×