Íslenski boltinn

„Reisn“ yfir á­kvörðun Jóns Daða sem gaf stórliðunum langt nef

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bjarni Jóhannsson fagnar komu Jóns Daða.
Bjarni Jóhannsson fagnar komu Jóns Daða. Vísir/Sigurjón

Það kom ýmsum á óvart að Jón Daði Böðvarsson skildi fara í næst efstu deild hér heima er hann samdi við lið Selfoss í gær. Hann kveðst ekki geta ímyndað sér að spila fyrir annað félag hérlendis. Þjálfari liðsins segir reisn yfir skiptunum.

Jón Daði bindur enda á 13 ára atvinnumannaferil sem hefur dregið hann frá Noregi til Þýskalands og víðsvegar um Bretland, auk þess sem hann spilaði 64 landsleiki á leiðinni. Kominn er hins vegar tími fyrir þennan 33 ára gamla leikmann að koma heim.

„Þetta er búið að vera ágætis ferðalag, þrettán ár úti og Ísland var farið að kalla mann heim. Dóttir mín er orðin sex ára gömul og maður vill að hún fari að finna fyrir smá stöðugleika í sínu lífi. Ég vildi líka koma heim á meðan ég er með eitthvað eftir á tanknum, vonandi,“ segir Jón Daði í samtali við Sýn.

Jón Daði hafði möguleika á að spila fyrir fremstu lið landsins, enda enginn aukvisi þar á ferð. Það kom því einhverjum á óvart að hann hafi ákveðið að fara í botnbaráttu í næst efstu deild. En hann var aldrei í vafa.

„Með fullri virðingu fyrir hinum liðunum, tilhugsunin um að spila fyrir annað félag en Selfoss sat bara ekki rétt í mér.“

Margur klórar sér eflaust í hausnum yfir því að fyrrum landsliðsmaður á besta aldri fari ekki í Bestu deild landsins. Bjarni Jóhannsson, þjálfari Selfoss, segir virðingarvert af hans hálfu að sýna hollustu og koma í heimahagana.

„Mér finnst alltaf reisn yfir því þegar svona leikmenn, sem hafa átt farsælan atvinnumannaferil og landsliðsferil, snúi heim í heimahagana og gefi af sér það sem þeir eiga eftir. Það er mikil reisn yfir þessum félagaskiptum,“ segir Bjarni.

Frétt úr Sportpakka gærkvöldsins má sjá að ofan. Viðtölin við Jón Daða og Bjarna í heild að neðan.

Klippa: Bjarni Jó: Reisn yfir þessu
Klippa: Gaf stóru liðunum langt nef: „Með fullri virðingu“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×