Lífið

Hefur lést um níu kíló eftir hjarta­á­fallið: „Maður vaknar svo­lítið við þetta“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Hjálmar örn er grínisti og hlaðvarpsstjórnandi.
Hjálmar örn er grínisti og hlaðvarpsstjórnandi. Vísir

Skemmtikrafturinn Hjálmar Örn Jóhannsson hefur tekið mataræðið og lífsstílinn algjörlega í gegn eftir alvarlegt hjartaáfall sem hann fékk í marsmánuði. Hann hefur lést um níu kíló á síðustu tæplega þremur mánuðum. Hann segir að áfallið hafi líka látið vini hans hugsa sinn gang og gera breytingar á sínum lifnaðarháttum.

Hjálmar Örn fékk hjartaáfall heima hjá sér fyrsta mars síðastliðinn, og var hann í kjölfarið sendur í þræðingu á spítalanum. Hann sagðist hafa upplifað svo mikinn sársauka þegar hann fékk áfallið að hann hafi langað út úr líkamanum.

„Ég bara tók allt út“

Hjálmar segir að honum hafi gengið ótrúlega vel að taka mataræðið og annað slíkt í gegn eftir áfallið.

„Þegar maður verður svona hræddur eins og ég varð, þá fer maður ósjálfrátt í survival mode, ég tók bara allt út. Allt koffín, allt kaffi, allan sykur þannig séð. Auðvitað er sykur í allskonar vörum sem maður veit ekkert af, en allt súkkulaði og svoleiðis, það fór allt út,“ segir Hjálmar sem var í viðtali á Bylgjunni í dag.

Hann segist ennþá huga vel að mataræðinu, en hann verði þó minna hræddur eftir því sem tíminn líður.

„En það er svo magnað, að þegar maður er búinn að taka þetta út, eins og ég gerði í næstum því sextíu daga, þá er ekkert craving. Mig langar ekkert svona rosalega í súkkulaði.“

„Það var búið að segja þetta oft við mig, ef þú hættir þessu verður þú með minna crave í þetta. Ég hef aldrei látið reyna á það beinlínis, en það er svo magnað að það er algjörlega staðan,“ segir hann.

Níutíu prósent hollt mataræði

Hjálmar segir að mataræði hans í dag sé „svona níutíu prósent fáránelga hollt, og svona tíu prósent svindl.“

„Ég fór í fermingarveislu um helgina og ég tók einn súkkulaðibita og fékk mér.“

Þá hafi hann fengið sér kaffi í fyrsta skiptið um langa hríð um daginn, cappuccino, og hann hafi fengið óþægilega tilfinningu í hjartanu í kjölfarið. Hann hefur ekki fengið sér annan kaffibolla síðan.

„Ég veit ekki hvort það var hausinn á mér, en þetta var of mikið.“

Hjálmar hefur lést um níu kíló á þessum tíma.

„Jájá það eru breytingar á vigtinni. Ég náttúrulega er bara í einhverjum göngutúrum en það eru níu kíló farin og það er bara mataræðið. Pælið í þessu.“

Fór til mömmu í hádegismat

Hjálmar segir að eftir svona hjartaáfall vakni maður óhjákvæmilega til vitundar um hollustufæði.

„Ég fór sem dæmi í eina mathöll í hádeginu í bænum og ætlaði að fá mér að borða, var ógeðslega svangur. Þá er enginn hollustuvalmöguleiki finnst manni. Maður fer allt í einu að spá í þessu, heyrðu hvar er hollustumatur, hvar get ég fengið eitthvða sem er ekki djúpsteikt eða löðrandi í sósu?“

Hvernig endaði þetta, hvað fékkstu þér?

„Heyrðu þetta er magnað, ég fór til mömmu. Ég vissi að hún var heima og ég brunaði bara til hennar. Hún er með svona lágkolvetnabrauð sem hún á alltaf.“

Hjálmar segir ólíklegt að hann hefði breytt mataræðinu, hefði hann ekki fengið hjartaáfall.

„Ég er bara þannig að ég breyti engu nema ég fái gula spjaldið, annars held ég bara áfram, ég er svolítið þannig.“

Hjálmar segist hafa fengið mjög mörg skilaboð frá fólki sem hefur hugsað sinn gang eftir áfallið hans.

„Ég á góðan vin sem var orðinn vel þungur, hann er búinn að taka svona kraftgöngu, tíu þúsund skref síðan 1. mars á hverjum einasta degi. Tók allt gos út og er að pæla mikið í þessu,“ segir hann.

Hjálmar er einn harðasti Tottenham maður landsins.Vísir

Fattaði ekki hvað hann var í lélegu formi

Hjálmar segir að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrir hjartaáfallið hversu lélegu formi hann væri í.

„Ég labbaði smá og varð strax þreyttur. Maðu bara gerði sér ekki grein fyrir þessu,“ segir hann.

Hann segir að hann hafi farið í fyrstu alvöru læknisskoðunina eftir áfallið í vikunni, og hann bíði niðurstaðna úr blóðrannsókn.

Hjálmar er grjótharður Tottenham aðdáandi og landsþekktur sem slíkur, en Tottenham unnu úrslitaleik Evrópudeildarinnar síðastliðinn miðvikudag.

Hjálmar horfði á leikinn í keiluhöllinni með vinum sem voru að fagna með bjór, pítsum og snakki.

„Ég leyfði mér aðeins, keypti svona litla rauðvínsflösku og fékk mér tvo sopa. Ég er enn þar, ég er ekki að fara hrynja í það eða eitthvað. Allt í smærri skömmtum, það er allt í smærri skömmtum,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Hjálmar Örn fékk hjartaáfall

Skemmtikrafturinn Hjálmar Örn Jóhannsson er á batavegi eftir að hafa fengið hjartaáfall heima hjá sér á höfuðborgarsvæðinu í gær. Hann þakkar heilbrigðiskerfi á Íslandi fyrir fagmennsku á ögurstundu.

Enn læstur úti en óviss um að hann langi aftur inn

Hjálmar Örn Jóhannsson skemmtikraftur og leikari er ennþá læstur út af samfélagsmiðlinum Facebook eftir að samfélagsmiðillinn hrundi í gær. Hann man ekki lykilorðið sitt en segist þrátt fyrir allt vera að íhuga að hætta bara alfarið á miðlinum.

Ætti að vera bannað að skilja á meðan börnin eru lítil

Þau Hjálmar Örn og Ljósa hittust fyrst á tvöföldu stefnumóti sem skólasystir Ljósu plataði hana á. Eftir stefnumótið sagðist Hjálmar gjarnan vilja hitta Ljósu aftur en tilkynnti henni þó að hann ætti stefnumót við aðra dömu daginn eftir. Ljósa var því óviss hvort hún myndi nokkurn tíman heyra frá Hjálmari aftur. Hann var hins vegar fljótur að átta sig á því að hann vildi kynnast Ljósu betur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.