Innlent

Mikill við­búnaður vegna sjóslyss við Ísa­fjarðar­djúp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið kallaðar út.
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið kallaðar út. Vísir/Vilhelm

Þrjú björgunarskip Landsbjargar eru mætt við Ögurvík í Ísafjarðardjúpi þar sem farþegabát tók niðri á tólfta tímanum í dag. 47 voru um borð og hefur flestum verið komið í björgunarskip og lítil hætta lengur á ferðum.

Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, við fréttastofu. Hann segir flesta farþega komna frá borði og yfir í björgunarskipið Svan frá Súðavík. Þá séu björgunarskipin Gísli Jóns og Kobbi Láka jafnframt komin á svæðið.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kom fram að skipstjóri á farþegaskipinu hefði haft samband við stjórnstöð Gæslunnar rétt fyrir klukkan tólf. Vegna fjölda farþega um borð í skipinu var hópslysaáætlun virkjuð og samhæfingarmiðstöð almannavarna mönnuð.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, áhöfnin á TF-SIF eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, sjóbjörgunarsveitir á Vestfjörðum og áhöfnin á varðskipinu Þór voru kallaðar út.

Jón Þór segir að farþegaskipið sé orðið laust og líkur á að það verði dregið til Ísafjarðar.

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum segir að auk 47 farþega hafi tveir verið í áhöfn. Báturinn hafði siglt frá Ísafirði í morgun. Þar segir að auk fyrrnefnda báta björgunarsveitanna hafi þjónustubátur frá fiskeldisfyrirtækinu Háafelli verið skammt undan. Tekið verði á móti farþegum í Ísafjarðarhöfn samkvæmt skipulagi almannavarna.

Síðastliðinn laugardag æfðu viðbragðsaðilar viðrögð við hópslysi í Ísafjarðardjúpi, sem tókst mjög vel að sögn lögreglu. Sömu viðbragðsaðilar vinni nú saman í raunaðstæðum. Samkvæmt skipulagi sé Landhelgisgæslan með stjórn á aðgerðum en með aðkomu aðgerðastjórnar almannavarna á Vestfjörðum, vettvangsstjórn, sem mönnuð er á Ísafirði, ásamt viðbragðsaðilum á NV Vestfjörðum.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×