Skoðun

Leið­réttum kerfis­bundið mis­rétti

Jónína Brynjólfsdóttir skrifar

Í dag eru rafveitur undanþegnar fasteignamati. Það þýðir að stærstur hluti mannvirkja til orkuframleiðslu – svo sem stíflur, lón og önnur tilheyrandi mannvirki – bera ekki fasteignaskatt. Eingöngu er greiddur fasteignaskattur af stöðvarhúsum, og það eitt.

Fasteignaskattur er þó einn af þremur lögbundnum tekjustofnum sveitarfélaga, ásamt útsvari og greiðslum úr Jöfnunarsjóði. Þessi undanþága veldur því að sveitarfélög verða af verulegum tekjum, sérstaklega þau sem hýsa stórar virkjanir.

Nefna má mitt eigið sveitarfélag, Múlaþing. Þar er að finna Kárahnjúkavirkjun. Uppistöðulón hennar, Hálslón, er 57 ferkílómetra stórt – það er allt innan marka Múlaþings, hefur 600 metra fallhæð og afkastagetu upp á 690 megavött. Hálslón er svo stórt að það sést frá geimnum – það er stærra en Bermúdaeyjar.

Til að setja þetta í samhengi: Kárahnjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, kostaði 146 milljarða króna við upphaf og er núvirt í dag rúmlega 335 milljarðar. Árið 2023 nam hagnaður Landsvirkjunar af grunnrekstri (fyrir skatta) 50 milljörðum króna, og árið þar á undan 40 milljörðum.

Þrátt fyrir þessa gríðarlegu verðmætasköpun fær Múlaþing einungis fasteignaskatt af vatnsréttindum – um 15 milljónir króna á ári. Fljótsdalshreppur fær einnig tekjur af stöðvarhúsi og vatnsréttindum – um 150 milljónir. Samtals fær Austurland því rétt tæplega 170 milljónir í fasteignaskatt vegna þessarar stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar.

Það er mikilvægt að minna á að verðmætin verða ekki til í rafmagnslínunum heldur í náttúrunni – þar sem orkan er framleidd, ekki endilega nýtt.

Enn í dag bíðum við eftir þriggja fasa rafmagni á Jökuldal – þótt risavirkjunin sé staðsett í bakgarðinum. Fjöldi starfa vegna raforkuframleiðslunnar er hverfandi – áætlað er að innan við tuttugu störf falli til vegna hennar á Austurlandi. Og ofan á þetta greiðum við háar upphæðir í dreifbýlisgjald raforku.

Nærsamfélög eiga skýlausan rétt á sanngjörnum hlut af þeim verðmætum sem verða til innan þeirra. Því fagna ég sérstaklega þeim áformum innviðaráðherra sem birtust í samráðsgátt stjórnvalda í vikunni – um að leggja fram frumvarp á haustþingi sem afnemur undanþágu vatnsafls-, jarðvarma- og vindorkuvera frá fasteignamati.

Þetta skref er ekki einungis eðlilegt heldur sanngjarnt og réttlátt.

Höfundur er forseti sveitarstjórnar Múlaþings og stjórnarmaður í Samtökum orkusveitarfélaga.




Skoðun

Sjá meira


×