Fótbolti

Logi á leið í burtu en ekki til Freys

Sindri Sverrisson skrifar
Logi Tómasson í leiknum eftirminnilega gegn Wales í fyrra þar sem hann opnaði markareikning sinn fyrir íslenska landsliðið.
Logi Tómasson í leiknum eftirminnilega gegn Wales í fyrra þar sem hann opnaði markareikning sinn fyrir íslenska landsliðið. vísir/Anton

Norska knattspyrnufélagið Strömsgodset hefur samþykkt að selja landsliðsbakvörðinn Loga Tómasson sem mun vera á leið til Tyrklands.

Logi hefur verið eftirsóttur og sérstaklega verið orðaður við félög Freys Alexanderssonar, fyrst Kortrijk í Belgíu og svo Brann eftir að Freyr flutti sig yfir til Noregs. Sjálfur lýsti Freyr yfir áhuga á leikmanninum, í óþökk þjálfara Strömsgodset.

Það varð þó aldrei af því að Logi færi til Brann og nú hefur Strömsgodset, samkvæmt TV 2 í Noregi, komist að samkomulagi við tyrkneska félagið Samsunspor um sölu á hinum 24 ára gamla Loga.

TV 2 segir þó að ekki séu öll smáatriði frágengin en að allt bendi til þess að Logi verði leikmaður Samsunspor.

Miðillinn segir að Logi hafi verið mikilvægur hlekkur í liði Strömsgodset síðustu ár en hann kom til félagsins frá Víkingi í ágúst 2023.

Samningur Loga við Strömsgodset gildir út árið 2026 og því eðlilegt að hann verði seldur í ár svo að félagið fái sem hæst verð fyrir kappann. TV 2 bendir hins vegar á að félagaskiptaglugginn í Tyrklandi opnist ekki fyrr en 1. júlí og að því gæti enn liðið nokkur tími þar til að allt verði frágengið.

Stian André de Wahl, blaðamaður Nettavisen, segir að Logi muni gangast undir læknisskoðun á komandi vikum og í kjölfarið skrifa formlega undir samning við sitt nýja félag. Strömsgodset fái allt að tíu milljónir norskra króna í sinn hlut, eða um 126 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×