Íslenski boltinn

Hetja Breiða­bliks lá á gjör­gæslu í eina viku: „Þakk­látur fyrir heilsuna“

Aron Guðmundsson skrifar
Kristófer Ingi kom inn á með krafti gegn KR á dögunum. Leik sem markaði endurkomu hans á knattspyrnuvöllinn.
Kristófer Ingi kom inn á með krafti gegn KR á dögunum. Leik sem markaði endurkomu hans á knattspyrnuvöllinn. Vísir/Pawel

Kristó­fer Ingi Kristins­son, leik­maður Bestu deildar liðs Breiða­bliks, sem sneri aftur inn á knatt­spyrnu­völlinn í síðustu um­ferð gegn KR og skoraði dramatískt jöfnunar­mark, lenti í heldur óskemmti­legri lífs­reynslu er hann vann í því að komast aftur inn á völlinn eftir að­gerð á báðum ökklum.

Kristó­fer fór í að­gerð á báðum ökklum í haust eftir síðasta tíma­bil þar sem að Breiða­blik stóð uppi sem Ís­lands­meistari en endur­hæfingin var þó ekki alveg eftir bókinni líkt og Kristó­fer greinir frá í áhuga­verðri færslu á sam­félags­miðlinum Face­book.

Í janúar lenti Kristó­fer í því upp úr engu að fá heiftar­lega strepta­kokka sýkingu í ökklann og varð fár­veikur.

„Ég var lagður inn á gjörgæslu í eina viku þar sem að mikil óvissa ríkti vegna þess að sýkingin var búin að dreifa sér inn í ökklann og bólgumörk í blóði orðin mjög há þar sem ég var kominn með blóðsýkingu.“

Sem betur komst Kristó­fer nógu snemma undir læknis­hendur.

„Sýkla­lyfin náðu að snúa hlutunum við og komu í veg fyrir enn frekari vanda­mál. Eftir það hófst langt endur­heimtar ferli þar sem hlutirnir voru teknir frá degi til dags í von eftir því besta.“

Kristó­fer sneri aftur inn á knatt­spyrnu­völlinn á mánu­daginn síðastliðinn í leik Breiða­bliks og KR í 5. um­ferð Bestu deildar karla sem bauð upp á mikla skemmtun.

Leiknum lauk með 3-3 jafn­tefli og það var Kristó­fer, sem kom inn á sem varamaður á 88. mínútu, sem reyndist hetja Breiða­bliks í leiknum með því að skora mikilvægt jöfnunar­mark í upp­bótartíma venju­legs leiktíma.

„Mér tókst að komast aftur á völlinn eftir mikla vinnu og er ég gífur­lega þakk­látur fyrir þann stuðning og hjálp sem ég hef fengið í gegnum þessa veg­ferð. Maður veit aldrei hvað getur gerst í lífinu og er þessi lífs­reynsla mjög mikill “eye opener” fyrir mig og hvað maður má vera þakk­látur fyrir heilsuna og þeim forréttindum sem fylgja henni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×