Lífið

The Wire og Sopranos-leikari látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Charley Scalies fór með hlutverk Horseface í The Wire-þáttunum.
Charley Scalies fór með hlutverk Horseface í The Wire-þáttunum. HBO

Bandaríski leikarinn Charley Scalies sem þekktur er fyrir hlutverk sín í þáttaröðunum The Wire og The Sopranos, er látinn, 84 ára að aldri. Hann lést fyrsta dag maímánaðar, en hann hafði glímt við Alzheimer-sjúkdóminn um nokkurt skeið.

Greint er frá andlátinu á sérstakri minningarsíðu.

Í frétt Variety um andlátið segir að Scalies hafi birst í öllum tólf þáttum annarrar þáttaraðar af The Wire. Hann fór þar með hlutverk hafnarverkamannsins Horseface, samverkamanns glæpaforingjans Frank Sobotka.

Í Sopranos fór hann með hlutverk Molinaro, fótboltaþjálfara Tony á gagnfræðiskólaárum hans, sem birtist í draumum hans í fimmtu þáttaröðinni.

Scalies fór einnig með hlutverk í þáttunum Homicide: Life on the Street, Law & Order, Law & Order: SVU og Cold Case.

Þá birtist hann einnig í kvikmyndum á borð við 12 Monkeys, Liberty Heights, Jersey Girl og Two Bits.

Hann lætur eftir sig eiginkonuna Angeline M. Scalies og fimm börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.