Innlent

Réðust á tvo menn á göngu

Atli Ísleifsson skrifar
Sex manns gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina.
Sex manns gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var meðal annars kölluð út vegna líkamsárásar, rúðubrots á skemmtistað, hópslagsmála og ofurölvi ferðamanns í gærkvöldi og í nótt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar en sex gista fangageymslur eftir nóttina.

Fram kemur að maður hafi verið handtekinn þar sem hann hafi brotið rúðu á skemmtistað. Segir að ekki hafi reynst nauðsynlegt að vista manninn í fangaklefa og að hægt hafi verið að klára málið með vettvangsskýrslu.

Þá var tilkynnt um hópslagsmál við bar í miðborg Reykjavíkur og áttu menn þar að hafa slegist með hnífum. Þegar lögregla kom á staðinn var tilkynningin þó líklega ekki á rökum reist en einn maður var þó kærður fyrir vopnalagabrot.

Ennfremur segir að lögregla hafi verið kölluð til vegna ofurölvi ferðamanns. Ekki náðist neitt samband við ferðamanninn um hvar viðkomandi væri að gista og fékk hann því gistingu í fangageymslu þangað til hann getur komið sér heim á hótel.

Á svæði lögreglustöðvar 3, sem nær yfir Breiðholt og Kópavog, var tilkynnt um líkamsárás þar sem nokkrir menn höfðu ráðist á tvo sem hafi verið á göngu í hverfinu. Málið er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×