Fótbolti

Hlutir sem Skaga­menn sætta sig alls ekki við

Aron Guðmundsson skrifar
Jón Þór Hauksson er þjálfari ÍA
Jón Þór Hauksson er þjálfari ÍA Vísir/Hulda Margrét

Jón Þór Hauks­son, þjálfari ÍA, segir að eftir tapið gegn Vestra í síðustu um­ferð Bestu deildarinnar hafi hann í fyrsta skiptið í mjög langan tíma verið virki­lega ósáttur við sitt lið. Hann vill svar frá sínum mönnum í kvöld þegar KR tekur á móti ÍA og býst Jón Þór við skemmti­legum leik gegn öflugu, hröðu en oft á tíðum kaótísku liði KR.

„Þetta leggst virki­lega vel í mig. Stór­leikur og ég er virki­lega spenntur. Við Skaga­menn þurfum auðvitað aðeins að girða okkur í brók eftir síðustu um­ferð og erum staðráðnir í því að gera betur. Ég á von á góðu svari frá mínum mönnum í dag,“ segir Jón Þór í sam­tali við íþrótta­deild í dag.

Þurfa að gera einföldu hlutina betur

ÍA tapaði nokkuð óvænt á móti Vestra á heima­velli í síðustu um­ferð og átti í raun bara tölu­vert erfitt upp­dráttar á móti Djúp­mönnum. Þetta var annar tap­leikur liðsins í röð og annar tap­leikur liðsins í fyrstu þremur leikjum þess í Bestu deildinni þetta tíma­bilið.

„Frá síðasta leik hefur þetta snúist um að koma mönnum svolítið á fætur, finna létt­leikann. Það er stutt á milli leikja núna og það er jákvætt, þegar að þú færð skell og ert sleginn niður í gólfið að eiga leik eftir fáa daga. Ég tel okkur hafa gert mjög vel í því að skerpa á hlutunum. Við þurfum að gera það. Þurfum að stíga svolítið skref til baka og gera ein­földu hlutina betur. Við höfum nýtt stutta tímann á milli leikja virki­lega vel. Við þurfum ekkert að fara kafa mjög djúpt í stöðuna þannig, deildin er bara að spilast svona. Það eru tólf hörku lið í þessari deild, allir leikir eru hörku leikir og ég held að þeir verði það í allt sumar.

Þú þarft því að vera klár á deginum og þannig hafa þessir leikir verið. Tapið á móti Stjörnunni í annarri um­ferð var ekkert endi­lega sann­gjarnt, við vorum alls ekki síðri aðilinn í þeim leik. Síðan kemur leikurinn við Vestra hér heima sem er kannski í fyrsta skipti í langan tíma hjá mér sem þjálfari ÍA þar sem að ég er virki­lega ósáttur við mitt lið að mörgu leiti. Að því sögðu byrjuðum við leikinn mjög vel en misstum svo tökin eftir því sem leið á hann. Það eru hlutir í þeim leik sem við getum alls ekki sætt okkur við. Hvorki ég sem þjálfari liðsins né leik­mennirnir sjálfir. Ég veit þeir gera það ekki. Það verður bara mjög spennandi að sjá mitt lið svara því í dag.“

Alltaf örlítið sérstakt að mæta KR

Jón Þór þekkir ríg KR og ÍA vel enda Skagamaður sjálfur. Liðin hafa eldað grátt silfur saman í gegnum tíðina og eiga á milli sín fjölda marga titla. Fiðringurinn fyrir viður­eign þessara liða er meiri heldur en fyrir aðra leiki.

„Ég neita því ekki, þetta eru alltaf sér­stakir leikir. Maður tók bæði eftir því sem barn og ung­lingur og svo líka eftir að maður tók við sem þjálfari ÍA. Í gegnum tíðina hafa þetta verið minnis­stæðir leikir. Þetta er alltaf ör­lítið sér­stakt, að mæta KR.“

Óskar Hrafn, þjálfari KRVísir/Anton Brink

KR hefur verið að ganga í gegnum endur­nýjun. Vestur­bæingurinn Óskar Hrafn Þor­valds­son tók við þjálfun liðsins á síðasta tíma­bili og hefur breytt um kúrs.

„Það eru spennandi hlutir að gerast í KR núna,“ segir Jón Þór um and­stæðing kvöldsins. „Óskar Hrafn kominn þarna inn og hefur verið að sækja til baka leik­menn KR með það fyrir augum að stækka aðeins hjartað í liðinu og hefur verið að spila á ungum og upp­öldum KR-ingum í bland við það. Það er for­múla sem þekkjum ágæt­lega hérna á Akra­nesi. 

Það er mjög spennandi fyrir KR-inga. Þeirra styrk­leiki í dag felst í því að þeir hafa verið að spila öflugan, hraðan og á köflum ör­lítið kaótískan sóknar­leik. Það er erfitt að spila á móti þeim en á sama tíma hafa þeir verið að gefa ágætis svæði og tækifæri á hinum enda vallarins. Ég á bara von á mjög spennandi, skemmti­legum og hröðum leik.“

Leikur KR og ÍA í 4.umferð Bestu deildar karla í fótbolta verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leik hefst klukkan 19:00 í kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×