Erlent

Hátt settur her­foringi fórst í bíl­sprengju nærri Moskvu

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumaður stendur vörð við Rauða torgið í Moskvu. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki.
Lögreglumaður stendur vörð við Rauða torgið í Moskvu. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/Getty

Herforingi sem situr í herforingjaráði Rússlands lést þegar bílsprengja sprakk í bænum Balashikha í umdæmi höfuðborgarinnar Moskvu í morgun. Sprengjan er sögð hafa sprungið þegar herforinginn gekk fram hjá kyrrstæðum bíl.

Rússneska alríkislögreglan staðfestir að Jaroslav Moskalik, aðstoðaryfirmaður aðalaðgerðastjórnar herforingjaráðs rússneska hersins, hafi látist í sprengingunni. Sprengja sem var fyllt með höglum hafi sprungið í Volkswagen Golf-bifreið.

Þarlendir fjölmiðlar segja að Moskalik hafi verið á gangi í nágrenni heimilis síns þegar bíll var sprengdur í loft upp. Reuters-fréttastofan segist ekki geta staðfest fullyrðingar rússnesku miðlanna sjálf.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að Moskalik hafi meðal annars verið einn fulltrúa herforingjaráðsins sem tók þátt í viðræðum við Úkraínumenn í París árið 2015, árið eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga ólöglega.

Ekkert hefur komið fram ennþá um hver stóð að baki sprengjutilræðinu. Nokkur launmorð hafa þó átt sér stað í Rússlandi á undanförnum misserum sem tengjast hernaði Rússa í Úkraínu.

Í febrúar var Armen Sakisjan, leiðtogi vopnaðrar sveitar sem er hliðholl Rússum í Austur-Úkraínu, ráðinn af dögum þegar sprengja sprakk í anddyri lúxusblokkar í Moskvu. Rússneska lögreglan sagði að það tilræði hefði verið þaulskipulagt.

Úkraínumenn gengust við því að hafa myrt Ígor Kirillov, rússneskan herforingja, með sprengju sem var komið fyrir í rafhlaupahjóli í Moskvu í desember. Kirillov hafði verið ákærður í Úkraínu fyrir að beita efnavopnum þar.

Þá voru Úkraínumenn að verki þegar Daria Dugina, dóttir eins helsta hugmyndafræðings rússnesku ríkisstjórnarinnar, var drepin í bílsprengju nærri Moskvu í ágúst árið 2022, um hálfu ári eftir að innrás Rússa hófst. Dugina hafði sjálf verið álitsgjafi í rússneskum fjölmiðlum og endurómað hugmyndir föður síns um rússneska heimsvaldastefnu.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×