Körfubolti

„Gott að sjá honum blæða á vellinum“

Sindri Sverrisson skrifar
Kristaps Porzingis fékk stóran skurð á ennið en kann að höndla slíkt eins og þjálfari hans Jo Mazzulla talaði um eftir leik.
Kristaps Porzingis fékk stóran skurð á ennið en kann að höndla slíkt eins og þjálfari hans Jo Mazzulla talaði um eftir leik. Samsett/Getty

Lettanum Kristaps Porzingis var ákaft fagnað í 109-100 sigri Boston Celtics á Orlando Magic í gærkvöld. Hann varð alblóðugur eftir fast olnbogaskot í þriðja leikhluta en kláraði leikinn með sárabindi og var hrósað í hástert af þjálfaranum, Joe Mazzulla.

Boston er nú komið í 2-0 í einvíginu við Orlando, í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar, og Porzingis átti sinn þátt í því með tuttugu stigum og tíu fráköstum í gærkvöld.

Ekki eru allir sammála um hvort olnbogaskotið frá Goga Bitadze hafi verið viljandi en Porzingis féll niður og það fossblæddi strax úr enni hans.

Lettinn sneri hins vegar aftur með sárabindi í fjórða leikhluta, hjálpaði til við að tryggja sigurinn og hélt áfram að skora stig hjá stuðningsmönnum Boston.

„Hvernig gat ég annað en komið aftur á völlinn? Bara: „Æ, ég er með fimm spor, ég get ekki spilað meira.“ Nei. Lappirnar á mér virkuðu. Það var allt í lagi og auðvitað hélt ég áfram. Þið þekkið mig líka. Ég kann að meta svona augnablik,“ sagði Porzingis.

Samherjar hans og Mazzulla þjálfari voru heldur ekki hissa á að sjá Porzingis aftur á vellinum og Mazzulla sagði það hreinlega ánægjulegt að sjá honum blæða.

„Ég kann vel að meta allt hans framferði. Hann hefur meðfæddan hæfileika til að taka hlutina mjög alvarlega en hafa á sama tíma frábæra yfirsýn. Maður sér hvað hann höndlar umhverfið vel, hvernig hann höndlar stuðningsmennina og þessi líkamlegu átök. Hann heldur alltaf jafnvægi og ég held að það hjálpi okkur,“ sagði Mazzulla áður en hann bætti við:

„Mér finnst gott að sjá honum blæða á vellinum. Ég held að það sé mikilvægt.“

Jaylen Brown var stigahæstur með 36 stig en Jayson Tatum var ekki með vegna meiðsla í úlnlið.

Butler fór meiddur af velli

Golden State Warriors urðu fyrir áfalli þegar Jimmy Butler fór meiddur af velli í 109-94 tapinu gegn Houston Rockets í gærkvöld. Beðið er eftir niðurstöðu úr myndatöku í dag til að meta hve alvarleg meiðslin eru en Butler meiddist strax í fyrsta leikhluta.

Houston jafnaði með sigrinum metin í einvíginu í 1-1. Cleveland Cavaliers komust svo í 2-0 gegn Miami Heat með 121-112 sigri.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×