Handbolti

Ó­vænt tap hjá Kolstad en Dana og Óðinn með allt á hreinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði átta mörk úr níu skotum gegn Suhr Aarau.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði átta mörk úr níu skotum gegn Suhr Aarau. getty/Jan-Philipp Burmann

Meistarar Kolstad töpuðu óvænt fyrir Nærbø, 32-38, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum norsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í dag.

Nærbø endaði í 5. sæti deildarinnar en gerði sér lítið fyrir og vann meistara síðustu tveggja ára örugglega í fyrsta leik einvígisins.

Íslendingarnir í Kolstad höfðu nokkuð hægt um sig í leiknum í dag. Sveinn Jóhannsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoruðu tvö mörk hvor, Arnór Snær Óskarsson eitt en Benedikt Gunnar Óskarsson var ekki á meðal markaskorara.

Annar leikur liðanna fer fram á heimavelli Nærbø á þriðjudaginn. Með sigri þar tryggir Nærbø sér sæti í úrslitum.

Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Volda sem bar sigurorð af Haslum, 25-28, í umspili um sæti í norsku úrvalsdeildinni. Volda er 1-0 yfir í einvíginu og vantar einn sigur í viðbót til að tryggja sér úrvalsdeildarsæti.

Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í Kadetten Schaffhausen sigruðu Suhr Aarau með minnsta mun, 26-27, í öðrum leik liðanna í undanúrslitum svissnesku úrvalsdeildarinnar. Kadetten Schaffhausen leiðir einvígið, 2-0, og getur tryggt sér sæti í úrslitum með sigri í þriðja leik liðanna á laugardaginn.

Óðinn var pottþéttur í leiknum í dag og skoraði átta mörk úr níu skotum. Hornamaðurinn var markahæstur í liði Kadetten Schaffhausen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×