Erlent

Vill enn stærra vopna­búr fyrir næstu stríð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, á fundi hergagnaframleiðsluráðs í morgun.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, á fundi hergagnaframleiðsluráðs í morgun. AP/Gavriil Grigorov

Valdimír Pútín, forseti Rússlands, segir að auka þurfi hergagnaframleiðslu ríkisins enn frekar og undirbúa Rússlandi fyrir frekari stríð í framtíðinni. Hergagnaframleiðsla í Rússlandi rúmlega tvöfaldaðist á síðasta ári en Pútín segir það ekki duga til, því framtíðin nálgist óðfluga.

Þetta sagði forsetinn á fundi með hergagnaframleiðsluráði Rússlands í morgun, samkvæmt frétt Moscow Times. Hann sagði það í algjörum forgangi að útvega hermönnum sem berjast í Úkraínu vopn en líta þyrfti til reynslunnar af átökum þar og hefja þróun á vopnum og hernaðaraðferðum framtíðarinnar.

Á fundinum sagði Pútín að um fjögur þúsund skrið- og bryndrekar hefðu verið sendir til hermanna í Úkraínu, auk 180 flugvéla og þyrla. Þá hefðu rúmlega ein og hálf milljón dróna verið framleiddir fyrir hermenn í fyrra.

„Ég veit það vel, og margir þeirra sem sitja þennan fund, að við eigum enn ekki nóg af þessum vopnum,“ sagði Pútín.

Hann sagði hergagnaiðnaði Rússlands hefði verið sett enn háleitari markmið varðandi það að auka framleiðslu.

„Við ættum að taka tilliti til vopnaþróunar í heiminum eins og það er hægt, það er að segja, að spá fyrir og skilja hvernig möguleg stríð framtíðarinnar verða háð. Framtíðin nálgast óðfluga.“

Pútín talaði um að auka framleiðslu ómannaðra vopna og vopnakerfa auk drónabáta. Einnig þyrfti að framleiða geislavopn sem gætu grandað drónum og flugvélum. Hann sagði einnig að notkun gervigreindar í hernaði opnaði á mikil tækifæri.


Tengdar fréttir

Sagður bjóða frið fyrir formlega eign á Krímskaga

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur stungið upp á því að hann muni stöðva innrás sína í Úkraínu og láta af kröfum sínum til afganga fjögurra héraða í Úkraínu, sem Rússar stjórna ekki að fullu. Þetta segist hann tilbúinn til að gera í skiptum fyrir viðurkenningu Bandaríkjanna á eignarrétti Rússa á Krímskaga, sem var innlimaður ólöglega árið 2014.

Bandaríkin íhugi að draga sig úr friðar­viðræðum Rúss­lands og Úkraínu

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir koma til greina að Bandaríkin hætti aðkomu sinni að friðarviðræðum milli Rússlands og Úkraínu ef vinnunni miðar ekki áfram á næstu dögum. Viðræður hafa staðið yfir í fleiri mánuði en ekki hefur tekist að binda enda á átökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×