Körfubolti

„Yrði magnað og skemmti­legt og eitt­hvað sem maður gleymir aldrei“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason hefur glímt við meiðsli síðustu vikurnar en er tilbúinn á ný.
Tryggvi Snær Hlinason hefur glímt við meiðsli síðustu vikurnar en er tilbúinn á ný. getty/Borja B. Hojas

Íslendingar gætu eignast Evrópumeistara í körfubolta í kvöld. Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Bilbao Basket mæta þá PAOK í seinni leiknum í úrslitum Europe Cup. Tryggvi hefur verið frá vegna meiðsla í um mánuð en er klár í slaginn fyrir leikinn mikilvæga í kvöld.

Tryggvi lék ekki með Bilbao þegar liðið vann PAOK í fyrri leiknum á sínum heimavelli, 72-65. En landsliðsmiðherjinn er byrjaður að æfa og tilbúinn að spila leik kvöldsins.

„Ég er ágætur. Ég er búinn að vera að klifra upp úr meiðslum en er búinn að taka eina og hálfa æfingu og er tilbúinn,“ sagði Tryggvi í samtali við Vísi í gær, þá nýkominn til Grikklands.

Hann hefur glímt við meiðsli í kálfa og ekkert spilað með Bilbao síðustu fjórar vikurnar.

„Maður þarf að bíða eftir að þetta komist saman og við höldum að þetta sé komið saman núna. Ég hef tekið tvær æfingar sem gekk vel á og fann ekki fyrir neinu,“ sagði Tryggvi. „Ég ætla að reyna að taka þátt í þessu og hjálpa. Maður verður að gera það.“

Tryggvi segir mikinn spenning innan félagsins enda á það möguleika á að vinna sinn fyrsta Evróputitil.

„Tilfinningin er mjög góð. Við börðumst mjög vel í fyrri leiknum, sérstaklega í vörn, og við náðum að halda þeim vel undir sínu meðalleik. En við vitum að þeir munu spila mun betur heima en vitum að við getum bætt helling í sókn. Í síðasta leik vorum við ekki beint við sjálfir í sókn. Við höfum sumt til að bæta og við vitum að þeir gera það líka þannig að þetta verður hörkuleikur. Við förum í hann með sjö stig í hag en það er ekki hægt að treysta á það, ekki þegar maður spilar á útivelli,“ sagði Tryggvi.

Hann segir að Bilbao ætli að forðast eftir fremsta megni að hanga á forskotinu frá fyrri leiknum.

„Við vitum að það er ekki hægt að verja svona plús mínus. Við mætum í leikinn til að vinna. Við vitum að það verður brjáluð stemmning þarna og við mætum sjálfir með nokkur hundruð manns. Það verður eflaust hellings mótlæti en bara skemmtilegt,“ sagði Tryggvi.

Bilbao er aðeins í 13. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar og á ekki möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Liðið hefur hins vegar verið á góðu skriði í Europe Cup og er hársbreidd frá því að vinna keppnina.

„Europe Cup er erfið keppni, sérstaklega þegar er komið á seinni stig. Toppliðin eru mjög góð. En núna er bara lokaskrefið; það er að reyna að klára þetta,“ sagði Tryggvi.

Bilbao komst í úrslit Europe Cup, fyrir tólf árum, en tapaði þá fyrir Lokomotiv Kuban frá Rússlandi. En núna ætla Bilbæingar sér alla leið.

„Þetta yrði risastórt fyrir félagið. Við höfum ekki náð í svona Evrópubikar áður og ekki ég sjálfur þannig þetta er líka mjög skemmtilegt og spennandi fyrir mig. Vonandi nær maður að grípa í einn svona bikar og lyfta. Það yrði magnað og skemmtilegt og eitthvað sem maður gleymir aldrei. En það er hörkuleikur framundan og við þurfum bara að taka á honum,“ sagði Tryggvi.

Ekkert komið á hreint

Samningur hans við Bilbao rennur út eftir tímabilið og enn er ekki ljóst hvað tekur við hjá Bárðdælingnum.

„Það er ekki neitt komið á hreint. Ég er að klára samninginn en líður mjög vel í Bilbao og það er gaman að spila hérna,“ sagði Tryggvi.

„Ég treysti á klúbbinn og liðsfélagana en svo koma viðskiptin inn í þetta og maður þarf stundum að hugsa um það. Maður heyrir bara eitthvað sem er í gangi en maður vill bara klára tímabilið vel og síðan fer maður að hugsa um næstu skref. Síðan tekur sumarið við sem er risastórt og það er nóg um að vera,“ sagði Tryggvi en síðsumars tekur íslenska landsliðið þátt á EM í þriðja sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×