Körfubolti

Nico Harrison: Áttaði mig ekki á hversu sterk ást þeirra á Luka var

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Dallas Mavericks brugðust mjög illa við því þegar Luka Doncic var skipt til Los Angeles Lakers. Þeir hafa líka komið saman og mótmælt fyrir utan höllina.
Stuðningsmenn Dallas Mavericks brugðust mjög illa við því þegar Luka Doncic var skipt til Los Angeles Lakers. Þeir hafa líka komið saman og mótmælt fyrir utan höllina. Getty/Austin McAfee

Nico Harrison, framkvæmdastjóri Dallas Mavericks, er án efa óvinsælasti maðurinn í borginni eftir að hann skipti stórstjörnunni Luka Doncic til Los Angeles Lakers fyrir Anthony Davis.

Stuðningsmenn Dallas Mavericks hafa síðan öskrað „rekið Nico“ við hvert tækifæri og áhugi á liðinu og öllu því tengdu hefur hrunið. Mótmæli og áhugaleysi hafa síðan orðið enn meira áberandi þegar gengi liðsins hefur verið dapurt.

Luka Doncic hefur líka farið á kostum með Lakers á sama tíma og Davis hefur lítið verið með vegna meiðsla.

Dallas Mavericks komst ekki í gegnum umspilið og tímabilinu er lokið. Í tilefni af því ræddi Harrison við fjölmiðla.

„Ég vissi ekki hversu mikilvægur Luka var fyrir stuðningsmennina,“ sagði Nico Harrison. ESPN segir frá.

„Ég áttaði mig ekki á hversu sterk ást þeirra á Luka var,“ sagði Harrison.

Harrison bjóst vissulega við hörðum viðbrögðum en taldi að þau myndu minnka eftir að Anthony Davis færi að spila reglulega með þeim Kyrie Irving, Klay Thompson, P.J. Washington og Dereck Lively II.

Raunin var önnur. Davis meiddist í fyrsta leik og Kyrie Irving sleit svo krossband. Allt gekk á afturfótunum og tímabilið rann út í sandinn.

„Okkur finnst við vera með meistaralið í höndunum og þetta lið getur unnið marga leiki. Hefði það gerst þá hefði hneykslunin dáið út. Því miður tókst það ekki og þetta hélt því stanslaust áfram,“ sagði Harrison.

Harrison viðurkenndi líka að hann hafi enn ekki talað við Luka Doncic.

„Mér líður eins og honum. Ég hef aldrei talað illa um Luka en er bara tilbúinn að halda áfram með liðið sem við höfum í dag,“ sagði Harrison.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×