Sport

Hefði fengið 20 ára bann fyrir sams­konar mál og Sinner

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Serena Williams var á sínum nær ósigrandi á tennisvellinum.
Serena Williams var á sínum nær ósigrandi á tennisvellinum. Axelle/Bauer-Griffin/FilmMagic

Tennisdrottningin fyrrverandi Serena Williams hefur lagt orð í belg varðandi bann Jannik Sinner, efsta manns heimslistans í tennis. Hún segir að hún hefði fengið 20 ára bann fyrir samskonar brot og hann gerðist sekur um.

Hinn 23 ára gamli Ítali fékk þriggja mánaða bann fyrir að brjóta tvívegis á síðasta ári reglur Alþjóða-lyfjaeftirlitsstofnunarinnar, Wada.

Hin 43 ára gamla Serena vann á 23 risamót á ferli sínum. Árið 2018 kvartaði hún yfir fjölda lyfjaprófa sem hún þurfti að taka á á því ári. Eitthvað hafði hún til síns máls því það ár hafði hún verið tekin í fimm lyfjapróf þegar komið var fram í júní, helmingi meira en keppinautar hennar.

„Ég elska Sinner, ég elska leikinn hans. Hann er frábær fyrir íþróttina. Það hefur svo oft verið reynt að draga mig niður, ég vil ekki draga neinn niður. Tennis karla þarf á honum að halda en ef ég hefði verið fundin sek um að brjóta lyfjareglur í tvígang hefði ég fengið 20 ára bann. Titlarnir mínir hefðu verið teknir af mér,“ sagði Serena í viðtali við Time.

Sinner sigraði Opna ástralska í janúar og mótmælti ekki þegar Wada dæmdi hann í þriggja mánaða bann í febrúar. Wada leitaði til Alþjóðaíþróttadómstólsins CAS þar sem sambandið vildi dæma Sinner allt að tveggja ára bann.

Williams grínaðist með það í viðtali sínu við Time að hefði hún verið fundin sek um brot á lyfjareglum á ferli sínum hefði hún verið dæmd í fangelsi.

„Þú hefðir heyrt um það í hliðarveruleika.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×