Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá á Facebook síðu sinni. Þar kemur einnig fram að mjög blint sé á svæðinu. Að sögn Hlyns Snorrasonar, yfirlögregluþjóns á Ísafirði, hefur þeim hefur borist ein tilkynning um að einstaklingur hafi fest bílinn sinn á heiðinni.
„Það er farinn dráttarbíll upp á Steingrímsfjarðarheiðina. Það er engum ráðlagt að fara upp á heiðina,“ segir Hlynur í samtali við fréttastofu.
„Við vitum ekki um nema einn bíl en það kann að vera að það séu fleiri.“
Lögreglan á svæðinu hvetur fólk til að láta vita sé það fast uppi á heiðinni.
Gul veðurviðvörun hefur verið gefin út á Vestfjörðum. Spáð er þrettán til tuttugu metrum á sekúndu með snjókum og skafrenning.
Veistu meira um málið? Áttu myndefni af svæðinu? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.
Á vefsíðu Vegagerðarinnar, umferðin.is, má sjá að einnig er lokað fyrir umferð um Dynjandisheiði og Klettháls á sunnanverðum Vestfjörðum.