Innlent

Hinir grunuðu lausir úr ein­angrun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tveir karlmannanna eru í kringum tvítugt en sá þriðji á fertugsaldri.
Tveir karlmannanna eru í kringum tvítugt en sá þriðji á fertugsaldri. Vísir/Vilhelm

Þrír karlmenn sem grunaðir eru um frelsissviptingu, fjárkúgun og manndráp í máli karlmanns sem fannst illa úti leikinn í Gufunesi fyrir fjórum vikur losna úr einangrun í dag. Þeir sitja eftir sem áður í gæsluvarðhaldi næstu fjórar vikurnar.

Fram kemur í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurlandi að krafist hafi verið áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir karlmönnunum þremur í gær. Héraðsdómur Suðurlands féllst á kröfu lögreglustjórans.

Fyrri kröfur um gæsluvarðhald hafa verið á grundvelli rannsóknarhagsmuna og hafa karlmennirnir þrír sætt einangrun. Nú er krafan á grundvelli almannahagsmuna og losna þeir úr einangrun klukkan fjögur síðdegis.

Karlmaðurinn, Hjörleifur Haukur Guðmundsson, fannst snemma að morgni þriðjudagsins 11. mars við göngustíg í Gufunesi í Reykjavík. Hann var þungt haldinn og lést skömmu eftir komu á slysadeild Landspítalans.

Lögregla hefur sagt rannsókn málsins miða vel. Lögreglan á Suðurlandi hefur við rannsóknina notið aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, embættis héraðssaksóknara og embættis ríkislögreglustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×