Eftir afar erfiða dvöl hjá Brann í Noregi kom Bjarki heim í upphafi tímabils 1999 og gekk í raðir KR eins og fjallað var um í öðrum þætti A&B, þáttaraðar um tvíburana Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni.
Bjarki átti stóran þátt í að KR varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í 31 ár. KR átti einnig möguleika á að vinna tvöfalt en liðið komst í bikarúrslit. Andstæðingurinn þar var ÍA, gamla liðið hans Bjarka.
Leikurinn var nokkuð jafn en Bjarki gulltryggði sigur KR með skoti fyrir utan vítateig þegar skammt var til leiksloka. Hann fagnaði með því að hlaupa í átt að stuðningsmönnum KR og kyssa merki félagsins á treyjunni sinni. Það fór illa í Skagamenn.
„Það var rýtingur í bakið á okkur Skagamönnum. Það voru ansi margir sem voru ekki sáttir við hann,“ sagði Alexander Högnason, sem var fyrirliði ÍA í bikarúrslitaleiknum 1999.
„Maður fékk alveg að heyra það og mörgum árum seinna. Það var eins og hann hefði framið einhvern glæp með því að kyssa þetta merki,“ sagði móðir Bjarka, Halldóra Jóna Garðarsdóttir.
„Það var talað um þetta í mörg ár á eftir,“ sagði Alexander ennfremur.
Innslagið úr A&B má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Þættirnir A&B verða sýndir á sunnudagskvöldum á Stöð 2 og Stöð 2 Sport.