Íslenski boltinn

Stórir draumar í Laugar­dalnum: „Allir vilja að Þróttur fari sem hæst“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Kristjánsson vill að Þróttur taki næsta skref og setju pressu á toppliðin í Bestu deild kvenna.
Ólafur Kristjánsson vill að Þróttur taki næsta skref og setju pressu á toppliðin í Bestu deild kvenna. stöð 2 sport

Kvennalið Þróttar í fótbolta stefnir hátt og fyrirliða og þjálfara þess dreymir um að koma liðinu ofar í fæðukeðju kvennaboltans.

Í fjórða þætti þriðju þáttaraðar Lengsta undirbúningstímabils í heimi tók Baldur Sigurðsson hús á Þrótturum. Hann ræddi meðal annars við fyrirliðann Álfhildi Rósu Kjartansdóttur og þjálfarann Ólaf Kristjánsson um væntingar þeirra.

Þróttur hefur alltaf endað í efri helmingi efstu deildar síðan liðið kom upp 2020 og það komst einnig í bikarúrslit 2021. Þróttur hefur aldrei unnið stóran titil í fótbolta, hvorki í karla- né kvennaflokki, en Álfhildi og Ólaf langar að breyta því.

„Draumurinn minn að gera eitthvað fyrir Þrótt, hjálpa þeim og þessari uppbyggingu sem er í gangi og vinna eitthvað fyrir þá. Það væri draumur,“ sagði Álfhildur sem hefur verið fyrirliði Þróttar síðan hún var átján ára.

Ólafur vill sjá Þrótt gefa í og bæta árangur síðasta tímabils þegar liðið endaði í 5. sæti.

„Við viljum bæta okkur frá síðasta tímabili, vera nær þessum toppliðum og á einhverjum tíma gera atlögu að því að þetta verði ekki svona mikið forskot sem Breiðablik og Valur hafa haft. Hvort það verður í sumar eða 2026 verður tíminn að leiða í ljós en við erum með hörkuhóp og hörkulið. Það hefur verið vel staðið að því að bæta inn í og ég er mjög ánægður með stöðuna á hópnum eins og hún er akkúrat í dag,“ sagði Ólafur sem tók við Þrótti fyrir síðasta tímabil.

Klippa: Lengsta undirbúningstímabil í heimi - Draumar og væntingar Þróttara

„Allir vilja að Þróttur fari sem hæst. Hvað erum við tilbúin að leggja mikið á okkur? Hvað erum við tilbúin - eins og góður maður segir - þjást til að ná í úrslitin. Þolinmæði, tími en þegar möguleikarnir eru áttu að reyna að grípa þá.“

Þróttur fær Fram í heimsókn í 1. umferð Bestu deildarinnar eftir viku.


Tengdar fréttir

LUÍH: Kom aldrei til greina að fórna „Maggiball“

Magnús Már Einarsson tók við þjálfun Aftureldingar í nóvember 2019, þá þrítugur að aldri. Hann er nú mættur með liðið í efstu deild karla í fótbolta. Leikstíllinn hefur vakið athygli og Magnús fór yfir það í nýjasta þætti Lengsta undirbúningstímabils í heimi.

Sauð á pabba Axels sem rauk heim af KR-leikjum

„Þessi tími hjá KR var stuttur og erfiður,“ segir Axel Óskar Andrésson. Axel og pabbi hans, kraftajötuninn Andrés Guðmundsson, ræddu um KR-tímann í fyrsta þætti nýrrar seríu af Lengsta undirbúningstímabili í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×