Íslenski boltinn

Sjáðu glæsi­mark Rúnars Más og skraut­legt sjálfs­mark á Hlíðar­enda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrick Pedersen skoraði jöfnunarmark Vals gegn Vestra. Hér fagnar hann ásamt Kristni Frey Sigurðssyni.
Patrick Pedersen skoraði jöfnunarmark Vals gegn Vestra. Hér fagnar hann ásamt Kristni Frey Sigurðssyni. vísir/anton

Sjö mörk voru skoruð í þremur leikjum í Bestu deild karla í gær. Fjögur þeirra komu á Akureyri þar sem KA og KR skildu jöfn.

Fyrri hálfleikur í leik KA og KR var afar fjörugur. KR-ingar náðu forystunni á 11. mínútu þegar Luke Rae skoraði eftir slæm mistök Ívars Arnar Árnasonar, fyrirliða KA-manna.

Á 24. mínútu jafnaði Ásgeir Sigurgeirsson fyrir KA eftir laglegan undirbúning Bjarna Aðalsteinssonar. Átta mínútum síðar kom Hans Viktor Guðmundsson heimamönnum yfir þegar hann skoraði eftir hornspyrnu.

Á markamínútunni, þeirri 43., jafnaði Jóhannes Kristinn Bjarnason fyrir gestina með góðu langskoti og þar við sat. Lokatölur 2-2. KR-ingar kláruðu leikinn níu en Aron Sigurðarson og Hjalti Sigurðsson voru reknir af velli undir lokin.

Klippa: KA 2-2 KR

Rúnar Már Sigurjónsson tryggði ÍA sigur á Fram á Lambhagavellinum með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu á 27. mínútu. Lokatölur 0-1, Skagamönnum í vil.

Klippa: Fram 0-1 ÍA

Á N1-vellinum á Hlíðarenda gerðu svo Valur og Vestri 1-1 jafntefli. Staðan í hálfleik var markalaus en í upphafi seinni hálfleiks skoraði Orri Sigurður Ómarsson, varnarmaður Vals, afar skrautlegt sjálfsmark.

Á 65. mínútu jafnaði danski markahrókurinn Patrick Pedersen metin fyrir Val og tryggði sínum mönnum stig.

Klippa: Valur 1-1 Vestri

Mörkin úr leikjunum þremur má sjá hér fyrir ofan.

Fyrstu umferð Bestu deildarinnar lýkur í kvöld með tveimur leikjum. Víkingur tekur á móti ÍBV klukkan 18:00 á rás Bestu deildarinnar og klukkan 19:15 er komið að leik Stjörnunnar og FH á Stöð 2 Sport 5. Allir sex leikirnir í 1. umferðinni verða svo gerðir upp í Stúkunni klukkan 21:25 á Stöð 2 Sport 5.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×