Erlent

Þjónustaði netþrjóta og hefur nú að­gang að opin­berum kerfum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Musk hefur mjög gaman af Coristine, ef marka má pósta hans á X.
Musk hefur mjög gaman af Coristine, ef marka má pósta hans á X. Getty/Samuel Corum

Fyrirtæki í eigu Edward „Big Balls“ Coristine virðist hafa veitt tölvuþrjótum tækniaðstoð fyrir um það bil tveimur árum. Coristine er nú einn starfsmanna DOGE og skráður sem „ráðgjafi“ á starfsmannaskrá utanríkisráðuneytisins og netöryggisstofnuninni CISA.

Frá þessu greinir Reuters en Coristine hefur áður fangað athygli fjölmiðla, ekki síst fyrir skrautlegt viðurnefni sitt og aldur. Hann er aðeins 19 ára gamall.

Árið 2022, á meðan hann var enn í skóla, ran Coristine fyrirtækið DiamondCDN en CDN stendur fyrir „content delivery network“. 

Meðal notenda DiamondCDN var hópurinn EGodly, sem hefur stært sig af því á samfélagsmiðlum að hafa stolið símanúmerum, brotist inn í tölvupóst löggæsluyfirvalda í Suður-Ameríku og Austur-Evrópu og að hafa stundað rafmyntaþjófnað.

Þá dreifði hópurinn persónuupplýsingum starfsmanns Alríkislögreglunnar (FBI) sem vann að rannsókn sem beindist að því sem er kallað „swatting“, það er þegar hringt er í neyðarnúmer til að tilkynna um skálduð neyðartilfelli, í þeim tilgangi að fá vopnaða lögreglu á staðinn.

Yfirvöld hafa ekki svarað spurningum Reuters um tengsl Coristine við EGodly en Nitin Natarajan, sem var aðstoðarforstjóri CISA í stjórnartíð Joe Biden, segir áhyggjuefni að einstaklingur sem hafi þjónustað EGodly fyrir aðeins tveimur árum hafi nú umfangsmikinn aðgang að opinberum kerfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×