Fótbolti

Ronaldo al­veg sama um eftirhermu Højlunds

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rasmus Højlund fagnar að hætti Cristianos Ronaldo.
Rasmus Højlund fagnar að hætti Cristianos Ronaldo. getty/Michael Barrett Boesen

Cristiano Ronaldo, markahæsta landsliðsmanni allra tíma, er alveg sama þótt Rasmus Højlund hafi hermt eftir einkennisfagni sínu í leik Danmerkur og Portúgals á dögunum.

Højlund skoraði eina mark leiksins þegar Danir sigruðu Portúgali, 1-0, í átta liða úrslitum Þjóðadeildarinnar á fimmtudaginn.

Højlund fagnaði markinu eins og Ronaldo gerir vanalega; með hinu svokallaða siu fagni. Daninn segir Portúgalinn sé helsta átrúnaðargoð hans og þess vegna hafi hann fagnað eins og hann.

„Mig hefur alltaf dreymt um að taka Ronaldo-fagnið, sérstaklega í leik á móti honum. Ekki til að nudda honum upp úr því eða eitthvað slíkt. Þvert á móti til að sýna virðingu. Ég er jú mikill aðdáandi,“ sagði Højlund eftir leikinn á Parken.

Ronaldo fannst Højlund ekki sýna sér vanvirðingu, þvert á móti var hann upp með sér.

„Þetta er ekki vandamál fyrir mér. Þetta er ekki vegna þess að hann ber ekki virðingu fyrir mér. Ég er nógu klár til að skilja að margir, ekki bara hann, nota fagnið mitt. Fyrir mér sýnir þetta virðingu,“ sagði Ronaldo fyrir seinni leik Portúgals og Danmerkur í kvöld.

Højlund hefur nú skorað í tveimur leikjum í röð eftir að hafa verið ískaldur vikurnar þar á undan.

Sigurvegarinn úr einvígi Portúgala og Dana mætir annað hvort Þýskalandi eða Ítalíu í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar. Úrslitakeppnin fer fram í Þýskalandi í byrjun júní.

Hinn 22 ára Højlund hefur skorað átta mörk í 23 landsleikjum. Hinn fertugi Ronaldo er aftur á móti með 135 mörk í 218 landsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×