Hjá Elfsborg hittir Ari fyrir annan fyrrverandi leikmann Víkings, Júlíus Magnússon, sem sænska félagið keypti frá Fredrikstad í Noregi í vetur.
„Það er frábær tilfinning að vera orðinn leikmaður Elfsborg og já, vonandi verður þetta góður tími hér með nokkrum titlum og minningum sem munu lifa,“ sagði Ari í viðtali á heimasíðu Elfsborg.
Ari er uppalinn hjá HK en fór ungur til Bologna á Ítalíu. Hann gekk svo í raðir Víkings 2022. Ari varð Íslandsmeistari með Víkingi 2023 og bikarmeistari 2022 og 2023. Þá var hann í Víkingsliðinu sem fór alla leið í umspil um sæti í sextán liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu.
Þjálfari Elfsborg, Oscar Hiljemark, er ánægður að hafa krækt í Ara.
„Við erum ánægðir að Ari hafi valið Borås og Elfsborg sem sitt næsta skref á ferlinum. Við erum að fá leikmann með spennandi hæfileika sem mun leggja mikið til málanna í þeim fótbolta sem við viljum spila,“ sagði Hiljemark.
Elfsborg endaði í 7. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Liðið mætir Mjällby í fyrsta leik sínum tímabilið 2025 30. mars næstkomandi.