Fótbolti

María skoraði sigur­markið á fyrstu mínútu leiksins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
María í leik með Fortuna Sittard en hún spilar nú í Svíþjóð.
María í leik með Fortuna Sittard en hún spilar nú í Svíþjóð. @FortunaVrouwen

María Catharína Ólafsdóttir Gros skoraði eina mark Linköping í 1-0 sigri á Malmö í riðlakeppni sænsku bikarkeppni kvenna í fótbolta. Þá skoraði Bryndís Arna Níelsdóttir sárabótarmark í 2-1 tapi Vaxjö gegn Rosengård.

Riðlakeppni sænsku bikarkeppninnar lauk í kvöld og er ljóst hvaða lið eru komin í undanúrslit keppninnar. Því miður fyrir Maríu og stöllur í Linköping var sigur kvöldsins ekki nóg en hann hjálpaði Guðrúnu Arnarsdóttur og Rosengård að komast áfram.

María var í byrjunarliði Linköping og var ekki lengi að láta að sér kveða þar sem hún skoraði það sem reyndist sigurmarkið strax á fyrstu mínútu leiksins. María var tekin af velli þegar tíu mínútur voru til loka venjulegs leiktíma.

Bryndís Arna hóf leik Rosengård og Vaxjö á bekknum. Hún kom inn á þegar 68 mínútur voru liðnar og minnkaði muninn tíu mínútum síðar. Nær komst Vaxjö ekki og 2-1 sigur Rosengård staðreynd.

Guðrún var ekki í leikmannahóp Rosengård í kvöld en það kom ekki að sök og liðið komið í undanúrslit ásamt BK Häcken, Norrköping og Hammarby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×