Innlent

Ó­á­kveðið hvort Sunnutorg verði ó­breytt eftir fram­kvæmdir

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Þórarinn segir Veraldarvini tilbúna í verkefnið.
Þórarinn segir Veraldarvini tilbúna í verkefnið. Samsett

Ekki liggur fyrir hvort sögufrægt útlit hússins við Sunnutorg verði óbreytt eftir fyrirhugaðar framkvæmdir. Framkvæmdastjóri Veraldarvina segir það heiður að taka við verkefninu á Sunnutorgi þar sem fyrirhugað er að opna kaffihús og fræðslumiðstöð um umhverfismál.

Sunnutorg hefur staðið tómt hér við Langholtsveg í um árabil. Reykjavíkurborg auglýsti eftir aðilum til að byggja upp húsnæðið árið 2023 en engin tilboð bárust. Það voru að lokum Veraldarvinir sem komu húsnæðinu til bjargar.

Reykjavíkurborg gerir húsaleigu og uppbyggingarsamning við félagsamtökin til fimmtán ára og munu samtökin fjármagna framkvæmdirnar að fullu og gera húsnæðið upp sem verður eign borgarinnar að leigutíma loknum.

Þórarinn Ívarsson, framkvæmdastjóri Veraldarvina, segir það heiður að fá að taka við húsnæðinu og að framkvæmdirnar muni glæða götuna lífi.

„Síðan viljum við reka hérna lítið kaffihús sem verður svona fræðslumiðstöð fyrir umhverfismál. Ég tel að það sé þörf á því að hafa hús hérna í Reykjavík þar sem fólk getur komið og fengið upplýsingar um sjálfbærni og annað þvíumlíkt.

Sjá einnig: Veraldarvinir ætla að byggja upp Sunnutorg

Hann segir ærið verk fyrir höndum. Það þurfi að rísa húsið nær alveg niður og endurbyggja það. Veraldarvinir séu klárir í það verkefni.

Lífrænn markaður og samkomuhús

Jafnframt verði svæðinu í kringum húsnæðið umbreytt í lífrænan markað og samkomustað fyrir fólk í hverfinu. Ekki sé búið að taka ákvörðun hvort haldið verði í einkennandi útlit hússins.

„Við sjáum til hvernig það fer. Húsið var allt öðruvísi hér áður fyrr. Kannski setjum við það í það horf, ég veit það ekki. Við þurfum bara að taka ákvörðun um það, hvað fólkið í götunni vill gera.“

Átt þú einhverja persónulega tengingu við húsið?

„Já, ég á það, ég bjó hérna í Gnoðavogi þegar ég var sex, sjö ára gamall. Þá tók ég strætó í Laugalækjaskóla og skipti um vagn hérna fyrir utan þetta hús. Það eru góðar minningar tengdar því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×