Play flutti 86.893 farþega núna í febrúar en 106.042 farþegar ferðuðust með flugfélaginu í febrúar árið áður sem er 13,8 prósenta munur.
„Sem er bein afleiðing af ákvörðun Play að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami og aðlaga framboðið eftir árstíðabundnum sveiflum,“ stendur í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.
Sætanýting í mánuðinum var 75,8 prósent samanborið við 81 prósent árið áður. Þá fór stundvísi úr 90,1 prósenti í 81 prósent milli ára.
„Play hefur lagt aukna áherslu á aukið framboðið til sólarlandaáfangstaða í Suður-Evrópu, sem endurspeglast í sætanýtingu í febrúar. Sólarlandaáfangastaðir gefa sér betri afkomu en þar sem um er að ræða beint flug frá Íslandi þar sem tengifarþegar eru ekki fyrir hendi, kemur það jafnan niður á sætanýtingu,“ stendur í tilkynningunni.
Áhersla á flug til sólarlanda hafi jákvæði áhrif á einingartekjur flugfélagsins en tekjurnar hafi aukist í sjö mánuði samfellt.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, segir í tilkynningunni að einingatekjur þróist áfram í jákvæða átt.
„Þetta er staðfesting á því að ákvörðun okkar um að breyta viðskiptalíkani félagsins hefur gefið góða raun og við erum viss um að þessi jákvæði viðsnúningur sem fylgir breytingunum haldi áfram,“ segir Einar Örn.