Körfubolti

Serena Willi­ams orðin eig­andi fyrsta kana­díska WNBA-liðsins

Sindri Sverrisson skrifar
Serena Williams hefur fjárfest í nokkrum íþróttafélögum eftir að tennisferlinum lauk.
Serena Williams hefur fjárfest í nokkrum íþróttafélögum eftir að tennisferlinum lauk. Getty/Lionel Hahn

Bandaríska tennisgoðsögnin Serena Williams er alls ekki hætt að skipta sér af íþróttum þó að spaðinn sé kominn á hilluna. Hún er nú orðin einn af eigendum nýs körfuboltafélags.

Williams, sem vann 23 risamót á sínum ferli, er kominn í eigendahóp Toronto Tempo. Þetta kanadíska lið var stofnað í vetur og verður á næsta ári fyrsta liðið utan Bandaríkjanna til þess að spila í WNBA-deildinni.

„Þessi stund snýst ekki bara um körfubolta heldur að sýna hið sanna gildi og getu íþróttakvenna. Ég hef alltaf sagt það að kvennaíþróttir séu ótrúlega gott fjárfestingartækifæri,“ sagði Williams.

Eftir að næsta tímabili lýkur í október mun Toronto Tempo, ásamt nýju liði frá Portland, taka þátt í leikmannavali til að fylla í leikmannahóp sinn.

Aðaleigandi Toronto Tempo er Kilmer Sports Ventures, undir forystu Larry Tanenbaum, en forseti félagsins er Teresa Resch.

„Ég er spennt fyrir því að ganga til liðs við Larry og Kanada allt í að búa til og skrá sögu þessa nýja WNBA-félags,“ sagði hin sigursæla Williams.

Í tilkynningu frá Toronto segir að Williams muni meðal annars koma að hönnun á treyjum nýja félagsins og vörum tengdum félaginu.

„Serena Williams er goðsögn, fyrirmynd og með kraft til að breyta heiminum,“ sagði Tanenbaum.

„Hún hefur unnið fyrir öllum sínum árangri með dugnaði, þrautseigju og ákveðni þrátt fyrir endalausar áskoranir. Hún stendur fyrir nákvæmlega það sem að Tempo á að standa fyrir. Við gætum ekki verið stoltari af því að hafa Serenu í okkar liði,“ sagði Tanenbaum.

Williams hefur áður eignast hluta í Miami Dolphins, Angel City FC og Los Angeles Golf Club.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×