Ísland tryggði sig inn á EM með sigrinum gegn Tyrkjum á sunnudaginn og nú ríkir mikil spenna eftir því að dregið verði í riðla fyrir EM, þann 27. mars.
Mótið fer fram í fjórum borgum og má hver gestgjafi velja eina samstarfsþjóð í sinn riðil. Gestgjafarnir eru Riga í Lettlandi (A-riðill), Tampere í Finnlandi (B-riðill), Limassol á Kýpur (C-riðil) og Katowice í Póllandi (D-riðill).
Á síðustu dögum hafa þjóðirnar valið sér samstarfsþjóð og munu Eistlendingar fara til Riga, Litháar fara til Finnlands og Grikkir til Kýpur. Finnar og Lettar höfðu sýnt því áhuga að fá Íslendinga til sín en hafa nú farið aðra leið.
Aðeins Pólverjar eiga því eftir að velja sér samstarfsþjóð og segir Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, „töluverðar líkur“ á að það verði Ísland. Ekkert sé þó enn frágengið og Hannes hvetur fólk til að bíða með að versla flugmiða.

Höll sem að Íslendingar þekkja
Íslendingar þekkja höllina glæsilegu í Katowice, Spodek, eftir að íslenska karlalandsliðið spilaði í henni á EM í handbolta árið 2016. Sú keppni fór reyndar hræðilega fyrir Ísland sem endaði neðst í sínum riðli og féll strax úr keppni, þrátt fyrir sigur á Noreg í fyrsta leik.
Ef að Pólverjar fara aðra leið og velja til að mynda Þýskaland eða aðra þjóð þá munu Íslendingar þurfa að bíða eftir drættinum 27. mars til að vita í hvaða borg þeir spila.
Doncic verður í Katowice
Ljóst er að mest umtalaði körfuboltamaður heimsins síðustu vikur, Luka Doncic, og félagar hans í slóvenska landsliðinu munu spila í Katowice. Þó að ekki sé búið að gefa út styrkleikaflokkana sex þá er ljóst að í flokki tvö verða Lettland, Litháen, Grikkland og Slóvenía. Búið er að raða þremur þeirra í aðra riðla svo að Slóvenar verða að fara í D-riðilinn í Póllandi.
Ef Ísland endar í sama riðli þá mun það koma í veg fyrir að Doncic og félagar komi til Íslands að spila vináttulandsleik í sumar, miðað við orð Craig Pedersen landsliðsþjálfara Íslands.
Leikið verður í fjórum sex liða riðlum á EM og fyrir dráttinn 27. mars verður liðunum raðað í sex styrkleikaflokka. Útlit er fyrir að Ísland verði í neðsta flokknum þrátt fyrir að hafa endað í 2. sæti í sínum undanriðli, fyrir ofan Tyrkland. Horft verður til stöðu á næsta heimslista þegar raðað verður í styrkleikaflokka.