Sport

Segir að pílukastarar fái á endanum nóg af ólátabelgjunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Littler segir að á endanum muni pílukastarar fá nóg af látunum í áhorfendum.
Luke Littler segir að á endanum muni pílukastarar fá nóg af látunum í áhorfendum. getty/Piaras Ó Mídheach

Heimsmeistarinn í pílukasti, Luke Littler, segir að keppendur muni ef til vill á endanum fara af sviðinu ef áhorfendur hætti ekki að trufla þá.

Littler undirbýr sig nú undir þriðja keppniskvöld úrvalsdeildarinnar í pílukasti. Hann á titil að verja en hann vann úrvalsdeildina í fyrra, þá aðeins sautján ára.

Littler hrósaði sigri á öðru keppniskvöldi úrvalsdeildarinnar sem litaðist af hrópum og köllum áhorfenda sem trufluðu keppendur. Littler segir að á endanum fái keppendur nóg og segi stopp.

„Augljóslega viljum við ekki að það gerist fyrir neinn. En ef það er örþrifaráð er ég viss um að keppandi ... hefur hann rétt á að fara af sviðinu? Kannski. Eða kannski ekki,“ sagði Littler.

„Ef keppandi labbar af sviðinu er ég viss um að öryggisverðir muni sinna starfi sínu og reki ólátabelgina út. Þá getum við keppendurnir haldið áfram. Auðvitað er það ekki gott fyrir neinn áhorfanda að flauta, hvort sem það er á mig eða andstæðing minn. Til dæmis þegar Rob Cross klúðraði tveimur sigurpílum á tvöföldum átján í síðustu viku þegar þeir flautuðu. Þá sagði ég að það væri áhorfendum að kenna því þú sérð Rob aldrei klúðra tvöföldum átján.“

Littler vann Luke Humphries í úrslitaleik annars keppniskvölds úrvalsdeildarinnar í Glasgow í síðustu viku. Þriðja keppniskvöldið verður í Dublin í kvöld. Littler mætir Gerwyn Price í 1. umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×