Handbolti

Janus Daði öflugur í súru tapi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Janus Daði í leik með íslenska landsliðinu.
Janus Daði í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Fjöldinn allur af íslenskum landsliðsmönnum kom við sögu í Meistaradeild Evrópu í handbolta. Því miður fagnaði enginn sigri.

Janus Daði Smárason átti flottan leik og var markahæstur þegar Pick Szeged tapaði 32-29 gegn Nantes í Frakklandi. Janus Daði skoraði fimm mörk og gaf eina stoðsendingu. Enginn Íslendingur kom við sögu þegar Magdeburg vann eins marks sigur á Álaborg, 32-31.

Pick Szeged er í 4. sæti með 12 stig á meðan Magdeburg er sæti neðar með 9 stig en leik til góða á Janus Daða og félaga.

Danska félagið Fredericia mátti þola sex marka tap gegn París Saint-Germain frá Frakklandi, lokatölur 32-38. Einar Þorsteinn Ólafsson komst ekki á blað hjá Fredericia. Danska félagið er á botni A-riðils með einn sigur í 12 leikjum.

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fjögur mörk þegar Kolstad gerði jafntefli við RK Zagreb í Króatíu, lokatölur 25-25. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði jafnframt eitt mark og gaf eina stoðsendingu í Íslendingaliði Kolstad.

Sigvaldi Björn gaf sömuleiðis eina stoðsendingu. Sveinn Jóhannsson komst ekki á blað hjá gestunum. Kolstad er í 6. sæti, einnig með 9 stig líkt og Magdeburg, eftir að hafa leikið 12 leiki.

Alls eru leiknir 14 leikir í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Að þeim loknum fara efstu tvö liðin í báðum riðlum beint í 8-liða úrslit á meðan liðin í 3. til 6. sæti fara í umspil um sæti í 8-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×