Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, gerði grein fyrir ástæðum þess að bankinn hefði lýst yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um mögulegan samruna. Bréf þess efnis var sent til Kauphallar í fyrradag og bankastjórar beggja banka ræddu málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Hann skrifaði grein sem birtist á Vísi í morgun þar sem hann færir rök fyrir því að umtalsvert óhagræði fylgi því að starfrækja hér á landi þrjá banka sem allir flokkast sem kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki.
„Það kostar einfaldlega of mikið. Hér er ég ekki einungis að vísa í kostnað innan bankanna sjálfra, sem er þó einna mikilvægasti þátturinn, heldur einnig kostnað samfélagsins við umfangsmikið eftirlit með kerfislega mikilvægum bönkum,“ skrifar hann.
„Ég er sannfærður um að samruni Arion banka og Íslandsbanka myndi leiða til þess að til yrði skilvirkari og öflugri banki sem myndi efla samkeppni og vera betur í stakk búinn að mæta þörfum viðskiptavina og fjárfesta í auknum mæli í þróun og nýsköpun,“ skrifar Benedikt.
Býður fimm prósent yfirverð
Hann segir sameinaðan banka geta veitt enn betri þjónustu með lægri tilkostnaði.
„Því höfum við hjá Arion lýst yfir vilja okkar til að vinna náið með Samkeppniseftirlitinu til að tryggja að 5 milljarðar króna að lágmarki, af þeim árlega sparnaði sem getur náðst fram við samruna Arion banka og Íslandsbanka, skili sér til neytenda. Yfir 10 ára tímabil næmi sparnaður íslenskra heimila þannig 50 milljörðum króna að lágmarki,“ segir hann.
Sjá einnig: Samruninn geti skilað auknum sparnaði til neytenda
Komi til samruna bjóði Arion banki hluthöfum Íslandsbanka 5 prósent yfirverð á markaðsvirði bankans. Ríkið á 42,5 prósent hlut í bankanum en sama dag og bréf Arion banka var sent tilkynnti Stjórnarráðið fyrirkomulag á fyrirhugaðri sölu á hlut sínum í Íslandsbanka. Benedikt telur mögulegan samruna ekki koma til með að hafa áhrif á sölufyrirætlanir stjórnvalda.
Neytendur nytu góðs af
„Hluthafar Íslandsbanka og Arion banka eignast hlutabréf í sameinuðu félagi og hlutur ríkisins í sameinuðu félagi yrði rúm 20%. Eins og ég hef þegar nefnt ætti almenningur með óbeinum hætti í gegnum íslenska ríkið og lífeyrissjóði meirihluta í sameinuðum banka,“ segir Benedikt.
Benedikt segist sannfærður um að neytendur, hluthafar og samfélagið allt nyti góðs af sameinuðum banka.
„Vilji okkar er skýr. Við teljum um einstakt tækifæri að ræða. Nú er annarra að meta hvort þau deila þeirri framtíðarsýn með okkur.“