Lífið samstarf

„Við höfum það fyrir sið að faðmast í að lág­marki sjö sekúndur á hverjum morgni“

Geðhjálp
samsett

„Ég tek G-vítamín á hverjum degi, enda er það alveg jafn nauðsynlegt og hin vítamínin,“ segir tónlistar- og fjölmiðlamaðurinn Gunnar Lárus Hjálmarsson, best þekktur sem Dr. Gunni.

„Eftir annasama daga finnst mér gott að fá mér þetta G-vítamín: taka stund með sjálfri mér og virkilega anda djúpt ofan í kviðinn,“ segir borgarfulltrúinn Sanna Magdalena Mörtudóttir sem stendur í stórræðum þessa dagana eins og aðrir borgarfulltrúar.

„Ég vinn mestan part við tölvuna. Því er hreyfing mér sérlega mikilvæg. Flesta daga felst stór G-vítamín skammtur í að ganga til og frá vinnu,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Landssamtökin Geðhjálp ýttu úr vör í upphafi þorrans árlegu 30 daga geðræktarátaki sem ber heitið G-vítamín og er byggt á Geðorðunum 10 og 14 Lífsorðum Héðins Unnsteinssonar og Þórdísar Rúnarsdóttur. Hér segja fjölmiðlamaðurinn Þorsteinn J. og lögmaðurinn Helga Vala Helgadóttir lesendum frá G-vítamínunum sínum.

„Ofan á grundvallarmál eins og að sofa vel, hreyfa mig og eta skynsamlega, þá passa ég mig alltaf að hafa eitthvað til að hlakka til á framtíðarplaninu,“ bætir Gunnar við. „Svo er ég fyrir löngu búinn að finna út hvað mér finnst skemmtilegt að gera og passa mig svo bara að gera sem mest af því og eins lítið og ég mögulega get af því sem er leiðinlegt.

Svo er ég fyrir löngu búinn að finna út hvað mér finnst skemmtilegt að gera og passa mig svo bara að gera sem mest af því

Ekki er verra að stíga út fyrir þægindarammann af og til og ég er t.d. nýlega bæði búinn að fara í karla jóga og fargufu og er þar að auki að passa tvo ketti þessa dagana. Lífið er einstakt ævintýri og enginn ástæða til að fara í gegnum það með rigningarský yfir hausnum ef maður mögulega kemst hjá því.“

Á þorranum munu birtast á Vísi greinar sem fjalla um átakið, auk þess sem eitt G-vítamín mun birtast á forsíðunni á Vísi daglega meðan átakið stendur yfir. Á sama tíma munu útvarpsstöðvarnar Bylgjan, FM957 og X977 vekja athygli á átakinu, fjalla um G-vítamín dagsins og fjalla almennt um geðheilbrigði.

„Djúp öndun gerir mér gott,“ bætir Sanna við. „Það er svo oft sem við förum í gegnum daginn á sífelldum þeytingi án þess að staldra við og einblína á öndunina. Annað nærandi G-vítamín er að elda góðan mat með vinkonu og spjalla saman um það sem er í gangi í lífinu. Ég er alltaf endurnærð eftir slíka nærandi samveru.“

Annað nærandi G-vítamín er að elda góðan mat með vinkonu og spjalla saman um það sem er í gangi í lífinu.

„Stundum gleymi ég mér í göngutúrunum og geng lengri leið en ég ætlaði mér nánast óafvitandi,“ bætir Breki við. „Það hreinsar hugann og núllstillir mig. Í þessum göngutúrum hringi ég stundum í dóttur mína, sem er við nám erlendis og spjalla við hana um allt og ekkert. Það jarðtengir mig.

Ég fæ stóran G-vítamín skammt við að faðma Steinu mína.

Um helgar reyni ég síðan að fara í lengri göngutúra í náttúrunni, á sléttlendi eða upp um fell og firnindi. Þeir færa mér ró og jafnvægi. Ég fæ stóran G-vítamín skammt við að faðma Steinu mína. Við höfum það fyrir sið að faðmast í að lágmarki sjö sekúndur á hverjum morgni. Það færir mér þakklæti og frið.“

Dagatal með G-vítamínskömmtum er til sölu á vef Geðhjálpar og í völdum verslunum Krónunnar um allt land.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.