Viðskipti innlent

Skattrannsókn leiddi til gjald­þrots Davíðs Smára

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Davíð Smári Lamude er þjálfari Vestra sem undirbýr sig nú fyrir annað tímabil liðsins meðal þeirra bestu.
Davíð Smári Lamude er þjálfari Vestra sem undirbýr sig nú fyrir annað tímabil liðsins meðal þeirra bestu. Vísir/Viktor Freyr Arnarson

Gjaldþrot Davíðs Smára Lamude, þjálfara Vestra í Bestu deild karla í knattspyrnu, nam 79 milljónum króna. Skatturinn sektaði Davíð Smára um tugi milljóna króna að lokinni rannsókn skattrannsóknarstjóra á þjálfaranum. Hann horfir björtum augum fram á veginn og segist hafa lagt á sig mikla vinnu til að snúa lífi sínu til betri vegar.

Í Lögbirtingablaðinu í dag kemur fram að Davíð Smári hafi með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða þann 7. nóvember síðastliðinn verið úrskurðaður gjaldþrota. Skiptastjóri var skipaður yfir búinu sem lauk störfum innan við tólf vikum síðar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu kom krafan um gjaldþrotaskipti frá Skattinum og var á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra á skilum Davíðs Smára á opinberum gjöldum. Í slíkum rannsóknum krefst skattrannsóknarstjóri yfirleitt kyrrsetningar á eignum en þær virðast ekki hafa verið fyrir hendi. Skatturinn sektaði Davíð Smára og þegar hún fékkst ekki greidd krafðist Skatturinn gjaldþrots.

Davíð Smári sneri sér að knattspyrnuþjálfun fyrir nokkrum árum og fór með lið Kórdrengja upp um þrjár deildar á jafnmörgum árum, upp í næstefstu deild. Félagið heyrir í dag sögunni til. Davíð Smári kom hins vegar Vestra upp í efstu deild árið 2023 og hélt liðið sæti sínu í deildinni á síðasta tímabili.

Davíð segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að hann hvorki feli þá staðreynd né neiti að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.

„Ég hef hins vegar átt í góðum samskiptum við skiptastjóra bús míns. Gert hefur verið grein fyrir málum öllum og spurningum hans svarað. Lengi skal manninn reyna. Undanfarin ár hef ég lagt á mig mikla vinnu til að snúa lífi mínu til betri vegar og er stoltur af því sem ég hef áorkað. Ég lít því spenntur til framtíðar,“ segir Davíð.


Tengdar fréttir

For­­maðurinn og þjálfarinn hand­skafa völlinn fyrir stór­­­leikinn á morgun

Vestra­menn sitja ekki auðum höndum þessar klukku­stundirnar. Fjöl­mennur hópur vaskra manna er mættur á Kerecisvöllinn til þess að hand­skafa völlinn eftir snjó­komu síðustu tveggja sólar­hringa. Á morgun taka Vestra­menn á móti Fylki í loka­um­ferð Bestu deildarinnar. Leikur sem að sker úr um hvort heima­menn haldi sæti sínu í deildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×