Innlent

„Sjálf­stæðis­flokkur og Fram­sókn ráða ekki ferðinni“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Dóra Björt Guðjónsdóttir er oddviti Pírata í borgarstjórn.
Dóra Björt Guðjónsdóttir er oddviti Pírata í borgarstjórn. Vísir/Arnar

Píratar í borgarstjórn hafa gefið frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja  að nú sé tækifæri til að mynda öfluga umbótastjórn í Reykjavík undir forystu kvenna. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ráði ekki ferðinni við myndun nýs meirihluta.

Viðræður milli Viðreisnar, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn strönduðu í dag en Inga Sæland formaður Flokks fólksins sagði að flokkurinn myndi ekki taka þátt í því að leiða Sjálfstæðismenn til valda.

Margir kostir í stöðunni

Píratar segja marga kosti í stöðunni í framhaldinu um myndun meirihluta.

„Einn kostur sem vært væri að kanna væri samtal um að halda meirihlutasamstarfinu áfram og klára síðasta árið án Framsóknarflokks sem hefur sagt sig frá verkefninu, en með stuðningi Vinstri grænna, Sósíalistaflokks og Flokki fólksins sem gætu tekið þátt eða eftir atvikum varið meirihlutann falli.“

Annar kostur væri að stofna fimm flokka félagshyggjustjórn Pírata, Samfylkingar, Flokks fólksins, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks.

„Gott samstarf næst fyrst og fremst milli þeirra sem starfa saman af góðum hug og heiðarleika í þágu almennings. Við teljum til mikils að vinna að stjórn borgarinnar sé í höndum fólks sem trúir á uppbyggingu félagslegra og grænna innviða, sanngjarnt og réttlátt samfélag, og skynsamlega nýtingu fjármagns.“

Réttlát mannréttindaborg með valfrelsi um ferðamáta og loftslagsmál í fyrirrúmi

Í yfirlýsingu frá Pírötum segir að flokkurinn hafi verið við stjórn í Reykjavík í tíu ár, og staðið fyrir „þróun réttlátrar mannréttindaborgar með valfrelsi um ferðamáta og loftslagsmál í fyrirrúmi.“

Þau hafi aukið gagnsæi og lýðræði, eflt spillingarvarnir, nútímavætt þjónustuna, einfaldað líf íbúa, og stutt betur við jaðarsett fólk með skaðaminnkun og húsnæði.

„Við höfum sett aðgengi fyrir fatlað fólk, trans fólk og fólk óháð stétt og stöðu í forgang. Við höfum fjölgað göngugötum og byggt upp göngu- og hjólastíga, lækkað hraða bílaumferðar, aukið gróður og gert borgina mannvænni, betri og öruggari fyrir börn og fullorðna. Að sama skapi höfum við lagt áherslu á ábyrgan rekstur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×