Erlent

Sóttu fimm kíló­metra inn fyrir varnir Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn eru sagðir hafa sótt fram á þrjátíu til fimmtíu skrið- og bryndrekum.
Úkraínskir hermenn eru sagðir hafa sótt fram á þrjátíu til fimmtíu skrið- og bryndrekum. Getty/Scott Peterson

Úkraínskir hermenn gerðu í gær nokkrar tiltölulega umfangsmiklar gagnárásir gegn Rússum í Kúrsk-héraði. Eru þeir sagðir hafa brotið sér leið gegnum varnir Rússa og sótt fram allt að fimm kílómetra.

Forsvarsmenn úkraínska hersins hafa enn sem komið er lítið tjáð sig um gagnsókn þessa en rússneskir herbloggarar tala um að árásirnar hafi verið gerðar með þrjátíu til fimmtíu skrið- og bryndrekum.

Hversu vel þessar árásir gengu er enn nokkuð óljóst en myndefni hefur samkvæmt hugveitunni Institute for the study of war sýnt að þeir sóttu í einhverjum tilfellum fram um fimm kílómetra inn fyrir varnarlínu Rússa.

Sóknir þessar voru gerður til austurs, suðaustur af bænum Sudzha, sem er stærsti bærinn sem Úkraínumenn stjórna enn í Kúrsk og helsta vígi þeirra.

Frá því Úkraínumenn komu Rússum á óvart með sókn þeirra inn í Kúrsk-hérað í Rússlandi, fyrir rétt rúmu hálfu ári, hefur yfirráðasvæði þeirra þar dregist töluvert saman. Úkraínumenn segjast hafa fellt fjölmarga Rússa og Norðurkóreumenn í Kúrsk á undanförnum mánuðum.

Guardian segir Vladimír Pútín, forseta Rússlands, hafa viðurkennt í samtali við tvo ríkisstjóra af svæðinu að ástandið í Kúrs sé „mjög erfitt“.

Á fundinum með ríkisstjórunum hrósaði Pútín nokkrum stórfylkjum landgönguliða og fallhlífarhermanna, auk annarra sveita sem berjast gegn Úkraínumönnum í Kúrsk.

ISW segir úkraínska hermenn í Kúrsk hafa haldið tugum þúsunda af bestu hermönnum Rússlands þar og í millitíðinni hafi ekki verið hægt að nota þá annarsstaðar á víglínunni, eins og í suðaustur Úkraínu, þar sem Rússar hafa lengi sótt hægt og rólega fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×