Erlent

Bannar trans konum að taka þátt í kvennaíþróttum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Donald Trump áður en hann skrifaði undir tilskipunina.
Donald Trump áður en hann skrifaði undir tilskipunina. EPA/FRANCIS CHUNG

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifaði undir tilskipun sem bannar trans konum að taka þátt í kvennaíþróttum. Tilskipunin er ein af mörgum sem hefur áhrif á réttindi trans einstaklinga í Bandaríkjunum.

Tilskipunin ber titilinn „að halda körlum frá kvennaíþróttum“ og tekur hún strax gildi. Trans konur og stelpur mega því ekki taka þátt í neinum íþróttaviðburðum sem haldnir eru fyrir konur.

„Með þessari tilskipun er stríðinu gegn kvennaíþróttum á enda,“ sagði Trump síðasta miðvikudag samkvæmt umfjöllun The Guardian.

Allar íþróttastofnanir eiga að breyta reglum sínum í samræmi við tilskipun Trumps.

Fyrsta dag sinn í embætti skrifaði Trump undir tilskipun sem sagði að formleg stefna bandarískra stjórnvalda sé að einungis séu til tvö kyn, karl og kona. Hann tilkynnti þessa tilskipun í innsetningarræðu sinni og fékk standandi lófaklapp frá viðstöddum. 

Þá undirritaði hann í síðustu viku tilskipun sem bannar trans einstaklingum undir nítján ára aldri að fara í kynstaðfestingarmeðferð. Einnig skrifaði hann undir tilskipun sem skipar alríkisyfirvöldum að fjarlægja „allar róttækar leiðbeiningar um kynjahugmyndafræði.“

Einhver bandarísk sjúkrahús hafa nú þegar neitað að sjá um kynstaðfestingarmeðferð ungmenna. Í fangelsum landsins eru dæmi um að trans konur séu einangraðar og þeim sagt að þær verði fluttar í fangelsi fyrir karla þar sem þær fá ekki lengur lyf fyrir kynstaðfestingarmeðferð sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×